Auglýsing

Móðurfélag Facebook segist ætla að stórminnka ritskoðun

Meta, eigandi Facebook og Instagram, hefur ákveðið að leggja niður staðreyndaprófunarkerfi sitt (Fact checkers) og taka í notkun nýtt kerfi sem byggir á samfélagsathugasemdum, svipað því sem notað er á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).

Breytingin verður fyrst innleidd í Bandaríkjunum en mun svo smám saman breiðast út um heiminn.

Samkvæmt Mark Zuckerberg, stofnanda og forstjóra Meta, var ákvörðunin tekin vegna pólitískrar slagsíðu hjá staðreyndaprófurum.

„Þeir hafa valdið meira vantrausti en trausti, sérstaklega í Bandaríkjunum,“ sagði Zuckerberg í yfirlýsingu.

Hann bætti við að of mikið efni hafi verið tekið til staðreyndaprófunar, sem hafi haft neikvæð áhrif á upplifun notenda.

Joel Kaplan, alþjóðlegur málefnaforstjóri Meta, sagði í færslu að nýja kerfið muni veita samfélaginu vald til að setja samhengi við efni sem gæti verið villandi.

Hann vísaði í reynsluna af þessu á X sem fyrirmynd fyrir breytinguna.

Meta hyggst einnig leyfa meira rými fyrir „almennar umræður“ með því að draga úr takmörkunum á tilteknum umræðuefnum.

Hins vegar verður áfram lögð sérstök áhersla á alvarleg brot, svo sem hryðjuverk, fíkniefni og kynferðisbrot og mun slíkt efni sæta alvarlegum og umsvifalausum viðurlögum.

Breytingarnar koma í kjölfar nýlegra forsetakosninga í Bandaríkjunum, þar sem Zuckerberg lýsti því yfir að þær hafi markað menningarlegan viðsnúning sem leggur aukna áherslu á málfrelsi í stað ritskoðunar.

Meta tilkynnti einnig að treysta eigi notendum meira með auknum sýnileika á pólitísku efni með því að snúa við fyrri ákvörðun frá 2021 um að draga úr slíku efni á miðlum sínum.

Notendur fá í staðinn meira vald til að stýra hversu mikið af pólitísku efni birtist í fréttaveitu þeirra.

Á sama tíma hefur fyrirtækið flutt teymi sem sinna öryggi og trausti frá Kaliforníu til Texas, sem Zuckerberg segir að eigi að auka trúverðugleika og draga úr áhyggjum um hlutdrægni í starfi þeirra en Kalifornía er þekkt fyrir mikla pólitíska slagsíðu.

Þessar breytingar hafa vakið athygli í ljósi gagnrýni Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur sakað Meta um að hygla frjálslyndum sjónarmiðum og þagga niður íhaldssöm sjónarmið.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing