Auglýsing

Óhugnanlegt myndband sýnir leigubílstjóra á Íslandi elta konu heim að dyrum og „fitla við sig“

Myndband gengur nú á íslenskum samfélagsmiðlum, en það er tekið upp af íslenskri konu og er sagt vera af leigubílstjóra sem hafði keyrt hana heim.

Friðrik Einarsson, sem sjálfur er leigubílstjóri og gengur undir nafninu TaxýHönter á X, segir frá því í nýrri færslu að konan hafi nýlega tekið leigubíl heim af djamminu og upplifað martröð þegar bílstjórinn mætti heim til hennar skömmu eftir að hafa skutlað henni.

Konan er sögð hafa sest upp í bíl með HOPP-merki í framrúðunni en eftir ferðina tekur hún eftir því að bílstjórinn elti hana heim að dyrum, bankaði á glugga hennar og hamraði á dyrabjöllunni um miðja nótt – á sama tíma og hann var að nudda á sér klofið.

Ólöglegt skutl eða óheiðarlegir bílstjórar?

Samkvæmt frásögn Friðriks keyrði bílstjórinn bíl sem merktur var HOPP-merki en Friðrik telur að bílstjórinn hafi notað bíl með merkingum fyrirtækisins en undir eigin nafni.

HOPP tekur fram að hafi ferðin verið á vegum fyrirtækisins sé hægt að rekja allt sem viðkemur henni

Friðrik segir að þegar ferð er tekin með ólöglegum eða óstaðfestum bílum sé algengt að bílstjórar noti eigin posa og óskráða gjaldmæla þar sem engin opinber taxti gildir.

Þetta getur skapað ótryggar aðstæður fyrir farþega, sérstaklega þegar ekki er unnt að rekja ferðir í kerfum eins og hjá löggiltum leigubílaþjónustum.

Lögreglan fær reglulega tilkynningar

Friðrik segir tilvik sem þessi ekki einsdæmi, þar sem lögreglan fær reglulega tilkynningar um kynferðislega áreitni í leigubílum og ólöglegum skutlferðum.

Hann segir að mörg slík mál fjara út í kerfinu sem orð gegn orði þar sem þau byggi oftast á orðaskiptum sem stendur á milli farþega og bílstjóra.

Blaðamður hafði samband við lögreglu sem gat ekki tjáð sig hvort þetta væri satt og rétt sem Friðrik segir.

HOPP tjáir sig

Sæunn Ósk Guðsteinsdóttir, framkvæmdastjóri HOPP svaraði spurningum blaðamanns en Sæunn segir fyrirtækið hafa „zero tolerance“ stefnu gagnvart öllu sem tengist brotum eða áreiti gegn farþegum.

Sæunn tekur skýrt fram að hafi ferðin verið á vegum HOPP sé hægt að rekja allt sem viðkemur ferðinni, hvort sem um er að ræða leið bílstjórans, hversu lengi hann staldraði við á svæðinu og svo framvegis.

Hún segir marga bílstjóra stunda að keyra fyrir fleiri en eitt fyrirtæki, þar á meðal bílstjóra sem starfi fyrir HOPP.

Til að ferðin geti talist á vegum HOPP þarf aftur á móti að panta ferðina sérstaklega í gegnum fyrirtækið en þegar slíkt er gert sjái farþegi allar upplýsingar um bíl og bílstjóra og geti valið og hafnað eftir því hvað neytanda finnst þægilegt.

Sæunn segist ekki efast eitt augnablik um frásögn konunnar og ítrekar að hafi ferðin verið pöntuð gegnum HOPP appið hvetur hún þolanda til að hafa umsvifalaust samband við fyrirtækið sem geti afhent öll gögn samstundis.

Sæunn endurtekur að fyrirtækið taki mjög hart á slíkri hegðun og og að hún líðist ekki undir nokkrum kringumstæðum.

Sæunn segir að mikilvægt sé að hafa í huga að bílar sem ekki eru pantaðir gegnum HOPP appið séu ekki á vegum fyrirtækisins.

Aukin varúð og skýrar reglur nauðsynlegar

Sæunn og Friðrik eru sammála um að þessi atburður undirstrikar mikilvægi þess að fólk noti löggilta leigubíla og bóki ferðir í gegnum viðurkennd forrit eða þjónustur.

Friðrik segir nauðsynlegt að fyrirtæki sem leyfa þriðja aðila að nota sín merki, eins og í þessu tilviki, tryggi að bílstjórar fylgi öllum reglum og bjóði örugga þjónustu.

Það er þó líklega ómögulegt að fylgja því eftir að skilti séu rétt í hverri einustu ferð en Sæunn segir að samkvæmt lögum Samgöngustofu beri bílstjórum að vera með skilti þess fyrirtækis sem þeir keyra fyrir hverju sinni.

Sæunn segir að samkvæmt reglum Samgöngustofu beri öllum leigubílstjórum skylda til að vera með kerfi þar sem hægt er að rekja ferðir bíla og skila til Samgöngustofu sé þess óskað.

Farþegar eru hvattir til að sýna varúð og tilkynna öll vafasöm tilvik tafarlaust til lögreglu.

Friðrik segir fyrirtæki sem koma að leigubílaþjónustu þurfa að axla ábyrgð og tryggja að slíkir atburðir eigi sér ekki stað.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing