Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, póstaði á samfélagsmiðlinum X myndbandi af viðtali CNN við Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ólafur Ragnar bendir á að til að skilja hvað gerðist og hvað getur gerst næst að þá sé mikilvægt að hlusta á viðtalið.
Í viðtalinu kemur meðal annars fram að samkomulagið sem átti að skrifa undir í Hvíta húsinu hafi verið löngu tilbúið en Zelenzky hafi krafist þess að skrifa undir það í Hvíta húsinu. Það rímar illa við samsæriskenningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, um fyrirsát.
Hugsanlega hefur Þorgerður Katrín ekki horft á blaðamannafund Trump, forseta Bandaríkjanna og Zelensky, forseta Úkraníu. Fundurinn stóð yfir í um 50 mínútur en ljóst er við að horfa á fundinn að Zelenzky vildi nota tækifærið til að færa rök fyrir því að ekki væri hægt að semja við Vladimir Putin Rússlandsforseta og að honum væri ekki treystandi. Hann væri illmenni sem ætti bara að borga stríðsskaðabætur og ekki orð um það meir. Hinsvegar var ljóst að Donald Trump vildi á fundinum, sem haldin var fyrir framan blaðamenn heimspressunnar, forðast í lengstu lög stórar fullyrðingar sem gætu fælt Putin frá samningaborðinu. Zelensky virtist ómögulega geta tekið þátt í því og fundurinn leystist þannig upp í mikla ringulreið. Staðan er augljóslega snúin þegar ekki er til staðar samningsvilji á milli stríðsaðila.
Jarðtengdur Ólafur Ragnar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur reynst þjóðinni vel og staðið með henni á ögurstundu. Þegar Alþingi samþykkti lög um ríkisábyrgð á Icesave innistæðum ákvað Ólafur Ragnar að synja lögunum og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeim var síðan hafnað. Alþingi hafði þá samþykkt að Íslenska þjóðin ætti að greiða skuldir óreiðumanna og sýndu skoðanakannanir þá að mikill meirihluti landsmanna var mótfallinn lögunum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, sat þá í fjárlaganefnd og var mikill talsmaður þess að lögin yrðu samþykkt, og að þjóðin myndi taka á sig þann mikla skuldabagga sem Icesve samningarnir voru. Það verður að segjast eins og er að íslenska þjóðin var heppinn að hafa Ólaf Ragnar með sér í liði á þessari ögurstundu.
„Ísland er nú aftur á ögurstundu. Við erum lítil herlaus þjóð mitt á milli Bandaríkjanna og Evrópu“
Það er reyndar áhugavert að rifja upp feril Þorgerðar Katrínar í stjórnmálum. Í bankahruninu var hún varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður og menntamálaráðherra. Eiginmaður hennar, Kristján Arason, sat í framkvæmdastjórn Kaupþings sem þá var stærsti banki landsins. Sumarið örlagaríka 2008 var hún starfandi forsætisráðherra í veikindaleyfi Geirs Haarde og var þar af leiðandi valdamesti stjórnmálamaður Íslands. Fræg eru ummæli hennar þann 25. júlí það árið þar sem hún sakaði Richard Thomas, sérfræðing hjá fjárfestingabankanum Merill Lynch, um annarleg sjónarmið og að hann þyrfti á endurmenntun að halda þegar hann gagnrýndi Íslensk stjórnvöld.
Í september 2008 féll Íslenska bankakerfið. Glitnir banki, Landsbanki Íslands og Kaupþing banki leituðu allir til ríkissjóðs með lánafyrirgreiðslu. Glitnir bauð upp á veð meðal annars íbúðarlánum einstaklinga og fleiri eignum. Úr varð að beiðnum Glitnis og Landsbankans var hafnað en samþykkt var að veita Kaupþingi 500 milljón evra lán til Kaupþings með veði í danska bankanum FIH.
Tekið skal fram að Þorgerður Katrín hefur neitað því að hafa tekið þátt í ákvörðunum á ríkisstjórnarfundum er varðar einstaka banka í kringum bankahrunið. En á sama tíma og Þorgerður Katrín var að fullvissa landsmenn að íslenska bankakerfið stæði traustum fótum færði eiginmaður hennar eignarhluti sína í Kaupþingi yfir í einkahlutafélag sem stofnað var í febrúar 2008. Við þann gjörning fóru skuldir sem hann var í persónulegri ábyrgð fyrir yfir í einkahlutafélagið og hann slapp undan sjálfskuldarábyrgð. Við bankahrunið skuldaði félagið Kaupþingi rúman 1.800 milljónir kr. og fór félagið síðar í þrot.
Valkyrjustjórnin í vígahug
Ísland er nú aftur á ögurstundu. Við erum lítil herlaus þjóð mitt á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Við erum með varnarsamning við Bandaríkin og höfum ávallt átt góð samskipti við bæði Bandaríkin og Evrópu. Hingað til hafa ráðamenn þjóðarinnar talað fyrir friði og hlutleysi þegar stórveldi standa í stríðsátökum. Valkyrjustjórnin svokallað virðist vera á öðru máli, keppist við það taka fullan þátt í stríðsátökunum og gagnrýnir forseta Bandaríkjanna, þann eina sem talar fyrir alvöru um frið, af miklu harðfylgi. Erfitt er að sjá að hagsmunum Íslendinga sé best borgið með þessari háttsemi. Væri ekki nær að tala fyrir friði og rækta vinsamleg samskipti við vinaþjóðir sem hafa reynst okkur vel?