Samkvæmt frétt á Rúv.is dróst sala á rafbílum mikið saman, eftir að skattaafsláttur féll úr gildi um áramót en svo geti stýrivextir og lausir kjarasamningar einnig haft áhrif.
Þegar árið 2023 var að líða undir lok voru nýskráningar rafbíla komnar yfir 85% af heildarbílasölu en í janúar datt hlutfallið niður í tæp 37%.
Síðustu þrjá mánuði hefur þróunin þó verið upp á við og það sem af er ári stendur hlutfallið í 44%.
„Í byrjun árs voru kjarasamningar lausir og vaxtastigið var gríðarlega hátt. Nú erum við að sjá að Seðlabankinn er að lækka vexti,“ er haft eftir Maríu Jónu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.
Þrátt fyrir dýfuna segir María að full ástæða sé til bjartsýni. Framleiðendur stefni flestir í sömu átt, rafbílategundum hafi fjölgað og það verði sífellt auðveldara að finna rafbíl sem hentar. „Það er að aukast og hefur að sjálfsögðu áhrif.“