Auglýsing

Reykjavíkurborg tilkynnir með stolti að nú sé enginn kynbundinn launamunur lengur hjá borginni

Reykjavíkurborg hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún tilkynnir með stolti að nú sé enginn mælanlegur kynbundinn launamunur hjá starfsmönnum borgarinnar.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt nýrri greiningu á launum starfsfólks Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024, sjáist að enginn mælanlegur kynbundinn launamunur er til staðar hjá borginni.

Leiðréttur munur á heildarlaunum kynjanna mælist 0%, sem þýðir að konur og karlar fá sömu laun fyrir sambærileg störf.

Launagreining staðfestir jafnræði

Greiningin var framkvæmd í október 2024 þegar Reykjavíkurborg hafði 10.453 starfsmenn á launaskrá.

Af þeim voru 7.572 konur (72,4%), 2.866 karlar (27,4%) og 15 kynsegin einstaklingar (0,1%). Vegna fámennis var hópur kynsegin einstaklinga ekki tekinn með í greininguna til að tryggja órekjanleika.

Niðurstöður sýna að þegar eingöngu er tekið tillit til starfshlutfalls, mælist 0,6% launamunur körlum í vil.

Þegar einnig er horft til þátta eins og menntunar, starfsreynslu, hæfnisflokka, starfaflokka, yfirvinnu og annarra launaþátta hverfur munurinn algjörlega, niður í 0%.

Áralöng vinna að launajafnrétti skilar árangri

Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst að launajafnrétti í mörg ár og fékk jafnlaunavottun árið 2019, sem var endurnýjuð árið 2022. Vottunin krefst þess að borgin sýni árlega fram á árangur í að tryggja jafnlaunastefnu.

„Eins og framangreint sýnir geta markvissar aðgerðir og skýr stefna í launasetningu leitt til raunverulegs árangurs í jafnréttismálum,“ segir Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar.

Þrátt fyrir að kynbundinn launamunur mælist nú enginn, mun borgin halda áfram að fylgjast með launaþróun og tryggja áframhaldandi jafnrétti.

Meðal komandi aðgerða er greining á inntaki starfslýsinga til að koma í veg fyrir hugsanlegan ójöfnuð í launasetningu.

Hérna er hægt að lesa tilkynningu borgarinnar í heild sinni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing