Auglýsing

Sara í Júník við dauðans dyr eftir ítrekaða vanrækslu lækna

Sara Lind Pálsdóttir, betur þekkt sem Sara í Júník, segir frá í færslu á Instagram sem Nútíminn fékk leyfi til að birta, að hún hafi lent í alvarlegri vanrækslu í heilbrigðiskerfinu sem kostaði hana næstum lífið.

Sara greinir þar frá hvernig hún á um það bil viku tímabili hafi gengið í gegnum mikil veikindi og að margt hafi farið miður í meðhöndlun lækna á þeim tíma sem varð til þess að hún verður nú í nokkuð langri lyfjameðferð og endurhæfingu.

Allt hafi þetta byrjað á að hún fékk um 40 stiga hita og upplifði mikla vanlíðan sem varð til þess að hún fór fyrst á bráðamóttöku Landspítalans. Þar voru teknar blóðprufur og gerð veiruskimun en ekkert óvenjulegt virtist hafa fundist við þær rannsóknir.

Eftir að hafa verið send heim upp úr því lýsir hún ástandi sínu þannig að hún hafi í raun legið hálf meðvitundarlaus og verið svo veikburða að kalla þurfti til lækni heim til hennar því hún var í engu ástandi til að koma sér sjálf upp á spítala. Að sögn Söru sagði sá læknir henni að „taka bara Treo“.

Líðan Söru batnaði ekkert og raunum hennar var svo sannarlega ekki lokið. Hún fór í heimsókn á heilsugæslu þar sem hún fékk jákvætt úr streptókokkaprufu en engin hálsbólga fannst. Þá fékk hún lyfseðil upp á mjög sterkar penisilín töflur sem hún átti að taka í 10 daga.

Sara og fjölskylda á góðum degi

Eftir þrjá daga á penisilínkúrnum segir Sara að engin breyting hafi orðið á hita né líðan. Þverrt á móti fór bæði hausverkur og hósti versnandi. Þá ákvað hún að fara aftur til læknis.

Hún segir að sá læknir hafi í raun ekkert skoðað sig og einungis sagt að hann myndi skrifa upp á enn sterkari sýklalyf og eftir það þyrfti hún bara að vona það besta því ekkert meira væri hægt að gera.

Seinna sama dag fór Sara í aðra heimsókn á læknavaktina en þá hafði henni hrakað mikið og um fimm leytið þann dag tók hún verkjatöflur og lagðist upp í rúm. Eftir það man Sara ekki meira þann daginn.

Þegar þarna var komið við sögu ákvað móðir hennar að bruna strax úr sveitinni þar sem hún býr til að fara með hana í frekari skoðun á meðan Krissi, maður Söru, gæti verið heima með börnin.

Þegar móðir Söru sá á henni ástandið var henni mjög brugðið og ákvað hún því að fara með hana beinustu leið upp á spítala eins hratt og hægt var.

„Þar fer allt á fullt þar sem ég var í mjög annarlegu ástandi og nánast með enga meðvitund“

Þar var neyðarferli sett í gang og Sara fékk margar sprautur, þvaglegg, æðalegg, vökva í æð og á endanum var ástandið metið svo slæmt að framkvæmd var mænustunga til að setja mænuvökva í ræktun.

Á endanum komu svo niðurstöður úr þeim rannsóknum og reyndist Sara þá vera bæði með heilahimnubólgu og lungnabólgu. Hvorki meira né minna.

Þegar að Sara komst síðan loks aftur heim til sín fór ástandi hennar enn og aftur að hraka og þegar hitinn var aftur komin yfir fjörutíu stig tók við önnur sjúkrahúsinnlögn þar sem henni voru gefin sýklalyf í æð.

Sara var virkilega þungt haldin þegar hún fékk loksins rétta greiningu

Síðar kom svo í ljós að mænustungan reyndist hafa misheppnast, að blóð hafi komist í vökvann sem setti greininguna í uppnám og læknarnir virtust þá í raun ekki vita hvort um heilahimnubólgu væri að ræða eða ekki. Þá var ákveðið að senda sýni úr vökvanum á erlenda rannsóknarstofu til að reyna fá nákvæmari niðurstöðu.

Sara lýsir yfir sárum vonbrigðum með heilbrigðiskerfið og þessa bitru reynslu hennar af því.

„Mér finnst alveg ótrúlega sorglegt að maður þurfi að vera orðin svona svakalega veikur, liggur við komin með annan fótinn í gröfina, áður en maður er tekinn alvarlega.“

Hún segir að fólk þekki almennt líkama sinn vel og viti þegar eitthvað alvarlegt er að en mæti oft daufum eyrum þegar reynt sé að útskýra fyrir læknum alvarleika ástandsins.

Hún segir vont þegar fólk sé í raun látið efast svo um sjálft sig að það haldi jafnvel að bara sé um einhvern aumingjaskap að ræða því læknarnir sem eiga að vita betur séu búnir að sannfæra fólk um að lítið sem ekkert sé að því.

En að endingu segist Sara þó mjög þakklát fyrir það yndislega fólk sem búið sé að sjá um hana og hjálpa henni á spítalanum síðustu daga og þakkar hún fyrir að vera loks á batavegi.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing