Nokkur gustur hefur verið á samfélagsmiðlum eftir að forsetaframbjóðandinn Arnar Þór Jónsson kærði teikningu í Vísi til blaðamannafélags Íslands en á teikningunni er Arnar settur upp í nasistabúning.
Páll Vilhjálmsson bloggari skrifaði um málið og fer yfir hvernig honum þyki líklegt að málið muni enda en hann spáir því að málið fari fyrir siðanefnd Blaðamannfélags Íslands þar sem það muni verða fellt niður.
Byggir Páll þá spá sína á fordæmi þar sem Illugi Jökulsson sagði útgefanda skrifa svo lélega íslensku að hann (útgefandinn) ætti heima bakvið lás og slá og hlaut kæru að launum en kærunni var hins vegar vísað frá vegna tjáningarfrelsis.
Hvernig Páll telur að muni fara fyrir kæru Arnars Þórs er þó ekki megininnihald pistilsins sem hann ritar heldur að hann bendir á hvernig margir blaðamenn hafi rokið upp til handa og fóta til að verja blaðamannastéttina og tjáningarfrelsið vegna þessa en gera sig svo seka um ærandi þögn þegar starfsbræður þeirra reyna að skerða tjáningarfrelsi annarra.
Hann minnist meðal annars á að Jakob Bjarnar, blaðamaður á Vísi hafi fengið Róbert Spanó, lagaprófessor og fyrrum forseta mannréttindadómstóls Evrópu og fékk hann til að tjá sig um málið.
Páll segir að Spanó hafir verið afdráttarlaus í svari sínu og sagt:
„Það er áhyggjuefni að löglærður forsetaframbjóðandi, sem segist annt um tjáningarfrelsið, skuli bregðast svona við þessari umræðu.“
Páll segir að með þessum viðbrögðum til verndar tjáningarfrelsinu sé þögn blaðamanna um kollega þeirra á Heimildinni enn háværari og minnir á að þrír blaðamenn sem allir starfa á Heimildinni hafi stefnt honum sjálfum tvisvar sinnum fyrir það eitt að skrifa um sakamál þar sem þeir sjálfir væru sakborningar.
„Þeir vildu þögn um málið og fengu hana að mestu frá félögum sínum meðal starfandi blaðamanna en bloggari sagði tíðindin“
Hann minnir svo á að fyrir þetta hafi hann fengið tvær málssóknir á hendur sér sem báðar eru í áfrýjun fyrir landsrétti og að dómur muni falla fljótlega í máli Þórðar Snæs Júlíussonar ritstjóra Heimildarinnar og Arnars Þórs Ingólfssonar blaðamanni gegn honum sjálfum.
Þegar dómur féll í fyrra málinu í héraðsdómi sagði Þórður Snær í viðtali við Morgunblaðið:
„Ég og Arnar Þór Ingólfsson vorum sakaðir um alvarleg hegningarlagabrot og það má ekki segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er.“
Páll segir aftur á móti að hann hafi einungis sagt að blaðamennirnir ættu „beina eða óbeina“ aðild að málinu og að slíkt gæti varla talist undarlegt þar sem þeir væru báðir sakborningar í málinu en bætir við að hann hafi einnig sagt að líklegt væri að ákæra yrði gefin út.
Páll heldur því fram að þarna hafi hann sem bloggari einungis verið að spá í stöðu mála enda þætti eðlilegt að álykta að menn ættu aðild að sakamáli sem þeir væru sakborningar í.
Páll vekur svo athygli á því að enginn starfandi blaðamaður hafi vakið máls á því að það gæti talist áhyggjuefni að blaðamenn sem segjast „annt um tjáningarfrelsið“ stefni bloggara fyrir að nýta sér það.
Hann ýjar að því að þá virðist gilda að ekki megi segja hvað sem er um hvern sem er en að þess á milli megi kenna aðra um nasisma og að aðrar reglur gildi um þá sem innvígðir eru en þá sem ekki séu í rétta liðinu.
Páll segir að lokum að í blaðamannastéttinni fari ekki saman hljóð og mynd þegar kemur að tjáningarfrelsinu og að stundum láti blaðamenn sér annt um það en stundum stefna þeir mönnum sem fjalla um mál sem blaðamenn vilja sjálfir þagga niður.