Auglýsing

Segir fréttamann RÚV farið viljandi með ósannindi um sig

Bergsteinn Sigurðsson, starfsmaður Ríkisútvarpsins, tók viðtal við Arnar Þór Jónsson, formann Lýðræðisflokksins, í aðdraganda alþingiskosninganna og fór með stór orð um oddvita flokksins í Norðvestur kjördæmi.

Oddvitinn sem um ræðir er Eldur Smári Kristinsson og hann var ekki sáttur með umfjöllun Bergsteins og svarar þeim í nýjum hlaðvarpsþætti sem hann kallar Eldvarpið.

Bergsteinn lýsir Eldi sem formanni samtaka sem eru sökuð um að ala á hatri í garð transfólks, segir Eld hafa verið fjarlægðan af lögreglu úr grunnskóla fyrir að mæta þar í leyfisleysi og mynda þar starfsfólk og börn, sakað þá sem berjast fyrir réttindum trans fólks um barnaníð og „þrástagast á að hún sé karl og farið klúrum orðum um kynfæri hennar á opinberum vettvangi.“

„Maður veit varla hvar maður á að byrja. Þetta eru engar smá fullyrðingar sem Bergsteinn Sigurðsson fer hérna með,“ segir Eldur.

Ósáttur með ummæli fréttamanns

Eldur segir rétt hjá Bergsteini að Samtökin 22 hafi verið ásökuð um hatur en það hafi gerst strax við stofnun samtakanna og löngu áður en þau tjáðu sig opinberlega.

Það er næsta fullyrðing sjónvarpsmannsins sem Eldur er hvað ósáttastur við en það mun vera þegar Bergsteinn sagði Eld hafa verið fjarlægðan af lögreglu úr grunnskóla fyrir að taka myndir, meðal annars af börnum.

„Hvaða hugrenningartengsl er hann að reyna að skapa með því að segja að ég hafi verið hirtur af lögreglunni fyrir að mynda börn í leyfisleysi?“

Eldur segir að þetta sé algerlega út úr kortinu og einfaldlega rangt og sakar Bergstein um að ganga erinda Pírata í að koma á sig höggi, eða svo hafi hann heyrt enda hafi hann aldrei verið fjarlægður af lögreglu, hvorki þarna né annars staðar og geti sannað það auðveldlega.

Hann segir einnig að sú fullyrðing að hann hafi sakað Uglu Stefaníu um barnaníð eða farið „klúrum og ruddalegum orðum“ um kynfæri Uglu, eigi ekki við nein rök að styðjast.

Tímasetningin ekki tilviljun

Eldur segir það sem hann kallar árás RÚV sérstaklega alvarlega þar sem þetta gerðist rétt fyrir kjördag.

Hann segir að kosningastjóri Lýðræðisflokksins hafi sent Ríkisútvarpinu skilaboð þar sem óskað var eftir því að Eldur fengi að mæta í sjónvarpssal og svara fyrir ásakanirnar á hendur sér og minnt á siðareglur blaðamannafélagsins og lög um Ríkisútvarpið frá Alþingi.

„Hefði Ríkisútvarpið unnið vinnuna sína hefði þetta aldrei gerst.“

„Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir,“ segir 2. grein í siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Eldur segir að þar sem ummæli Bergsteins hafi verið á besta tíma í sjónvarpi og þess vegna mögulega náð til meirihluta landsmanna, ætti hann að fá tækifæri til að svara fyrir sig á sama vettvangi.

Fékk ekki að svara fyrir sig

Í stað þess að fá að svara fyrir sig á sama vettvangi var birt leiðrétting á þessum orðum neðst í annarri frétt.

„Leiðrétt klukkan 15:28, 27. nóvember: Í viðtalinu var sagt að Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22 og oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefði mætt óboðinn í grunnskóla og verið fjarlægður af lögreglu. Hið rétta er að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar tilkynnti málið til lögreglu.“

Eldur segist sannfærður um að þessi ósannindi sem hann segir Bergstein hafa farið með, hafa verið atlaga að honum og flokknum og viljandi farið með rangt mál í „sjónvarpi allra landsmanna.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en sú umfjöllum sem vísað er í byrjar á 4:25 í myndbandinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing