Kjaradeila grunnskólakennara er í fullum gangi, en þrátt fyrir hörð átök á milli kennara og sveitarfélaga virðist stéttin sjálf spila stórt hlutverk í skerðingu eigin réttinda til yfirvinnu.
Þetta segir kennarinn Helga Dögg Sverrisdóttir sem sendi inn grein þar sem hún lýsir hvernig kennarar hafa yfirvinnu af öðrum kennurum.
,,Kennari getur tapað möguleika á yfirvinnu ef annar kennari samþykkir að taka á sig hópinn fyrir minna gjald“
Grunnskólakennarar kvarta oft undan takmörkuðum möguleikum á yfirvinnu en Helga segir að raunveruleikinn sé sá að margir þeirra taka sjálfir ákvarðanir sem draga úr þessum tækifærum.
Í stað þess að nýta forfallakennslu til að skapa yfirvinnu fá kennarar oft álagsgreiðslur fyrir að taka á sig auka nemendahópa en slíkt minnkar möguleika annarra kennara á aukagreiðslum.
Kennarar í eyðu missa af yfirvinnu
Samkvæmt kjarasamningum geta kennarar fengið hálfa yfirvinnustund í álag fyrir að taka nemendahóp annars kennara.
Þetta þýðir að þegar kennari er í eyðu, þ.e. hefur enga kennsluskyldu á tilteknum tíma, getur hann tapað möguleika á yfirvinnu ef annar kennari samþykkir að taka á sig hópinn fyrir minna gjald.
Þá er algengt að skólastjórnendur bregðist við forföllum með því að fella niður tíma í stað þess að greiða kennurum fyrir forfallakennslu, jafnvel þótt kennarar séu tiltækir.
Helga segir þetta vekja spurningar um hvort foreldrar séu sáttir við slíkar sparnaðaraðgerðir á kostnað menntunar barna sinna.
Teymiskennsla dregur úr yfirvinnu
Teymiskennsla er vinsæl í mörgum grunnskólum en hún getur einnig haft neikvæð áhrif á yfirvinnumöguleika kennara.
Þegar einn kennari í teymi veikist skiptist álagið milli annarra kennara teymisins í stað þess að afleyingaraðili sé kallaður til.
Samkvæmt kjarasamningum fá kennarar í fjögurra manna teymi 33 prósent álagsgreiðslu hver ef einn forfallast, en í fimm manna teymi er greiðslan 25 prósent.
Þetta fyrirkomulag, sem líklega var upphaflega hugsað sem leið til að bæta kennurum fyrir aukaálag, virðist nú vera orðið til þess að draga úr eftirspurn eftir forfallakennslu og minnka þannig yfirvinnumöguleika annarra kennara.
Sjálfsprottin niðurskurðaraðgerð?
Þó að grunnskólakennarar berjist fyrir bættum kjörum í kjaradeilunni sýnir fyrirkomulag forfallakennslu og teymisvinnu að þeir taka sjálfir ákvarðanir sem veikja möguleika stéttarinnar á aukatekjum.
Með því að samþykkja álagsgreiðslur í stað yfirvinnu er stéttin óbeint að draga úr eigin réttindum.
Aukin veikindi og álag hafa verið áberandi í umræðunni um kjaramál kennara.
Helga segir það því góða spurningu hvort kennarar muni í auknum mæli hafna þessum álagsgreiðslum og krefjast þess að forföll séu leyst með yfirvinnu eða hvort þeir haldi áfram að taka á sig aukna vinnu án fullrar umbunar.