Karlmaðurinn sem réðist á barnsmóður sína á Vopnafirði í október og er meðal sem meðal annars er ákærður fyrir stórfellt brot í nánu sambandi, tilraun til manndráps, kynferðisbrot og húsbrot segist ekki muna eftir meintri árás við þingfestingu. Hann neitar sök í öðrum ákæruliðum.
Karlmaðurinn, sem er á sextugsaldri, sem hefur verið ákærður fyrir stórfellt brot í nánu sambandi, ber fyrir sig minnisleysi. Við þingfestingu málsins í vikunni sagðist maðurinn ekki geta svarað því sem hann myndi ekki eftir en neitaði refsiverðri háttsemi í tengslum við aðra ákæruliði. Hann er einnig ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, vopnalagabrot og áreitni gagnvart konunni.
Lögreglan brást
Konan sem maðurinn beitti ofbeldi heitir Hafdís Bára Óskarsdóttir og lýsti árásinni í viðtali í Kastljósi í desember. Þar greindi hún frá því hvernig lögregla hafi brugðist í aðdraganda árásarinnar. Hún fékk ekki nálgunarbann eða neyðarhnapp þrátt fyrir að maðurinn hafi ofsótt hana vikum saman.
Maðurinn réðist svo að konunni með rúllubaggateini í skemmu við heimili hennar, reyndi að stinga hana með teininum og notaði hann svo til að þrengja að hálsi konunnar og reyna að kæfa hana. Hún var með áverka víðsvegar um líkamann eftir þessa árás.
Ekki fyrsta árásin
Tveimur dögum fyrir árásina kom maðurinn án leyfis inn á heimili konunnar þar sem hann reyndi að kyssa hana í svefnherbergi og reif hana úr buxum og nærbuxum áður en henni tókst að koma honum fram á gang.
Konan fer fram á sex milljónir króna í miskabætur og að maðurinn greiði sjúkrakostnað hennar. Maðurinn sem varð fyrir líkamsárásinni 2023 fer fram á 750 þúsund krónur í miskabætur.