Auglýsing

Sjónarvottur lýsir flóðasvæðunum á Spáni sem helvíti á Jörð – „Þúsund sinnum verra en í fréttunum“

Joseph Martin á ættingja og vini sem misstu allt nema líf sitt í flóðunum í Valencia héraði og hann segir aðstæður fólks þar ólýsanlegan hrylling og að stjórnvöld hafi brugðist fólki á allan mögulegan hátt.

Hann segir fréttirnar hafa reynt að fegra ástandið á svæðinu og að nauðsynlegt sé að fólk viti hvað raunverulega átti sér stað í þessum mannskæðustu náttúruhamförum Spánar í áratugi.

Joseph er venjulega með Youtube síðu þar sem hann kennir fólki spænsku en notar hana til þess að koma sögu sinni á framfæri en hún er skelfilegri en versta hryllingsmynd.

Hann stýrir nú eins konar miðstöð fyrir hjálparstarf í Alfafar en það er bær sem varð einna verst úti í flóðunum.

Aðstæður

Joseph byrjar á að lýsa aðstæðum eins og þær eru á svæðinu undir venjulegum kringumstæðum en í öllu Valencia héraði eru stór og þurr árfarvegur sem ætlað er að flytja regnvatn til sjávar undir venjulegum kringumstæðum.

Á þessum degi voru rigningarnar hins vegar svo miklar að vatnið flæddi yfir allt en magnið á sumum svæðum var rúmlega 500 lítrar á fermetra sem er langt umfram það magn sem fellur á heilu ári undir venjulegum kringumstæðum.

Þetta, ásamt því að búið er að fjarlægja mikið magn af stíflum og flóðavörnum af svæðinu, gerði það að verkum að þegar flóðin skullu á bæjum neðar í héraðinu, var hún orðin jafn kraftmikil og raunin varð.

Kort af árfarveginum sem venjuleg ber regnvatn til sjávar en dökku svæðin er þau sem verst urðu úti í flóðunum

Hann lýsir svo því sem staðfestir frétt Nútímans fyrir um viku síðan en fólk hafði ekki hugmynd um að flóðið væri á leiðinni þrátt fyrir að veðurstofa Spánar hafi sent yfirvöldum tilkynningu um að hætta væri á stórflóðum en yfirvöld sendu þær viðvaranir ekki á almenning.

Það hafi ollið því að fólk hafi verið á ferðinni við hversdagslegar athafnir þegar flóðið dundi á þeim af fullum krafti.

Munurinn á þessu flóði og venjulegum flóðum

Joseph lýsir því að íbúar á svæðinu séu vanir því að vatnsmagn rísi í bæjum þegar mikil rigning skellur á en þá rísi vatnsmagn hægt og rólega en í þessu tilfelli hafi risastór flóðalda skollið á bæjum þar sem ekki var byrjað að rigna og hreif með sér bíla, brýr og jafnvel hús.

Þetta hafi orðið til þess að fólk átti sér einskis ills von og fólk var statt í bílum sínum þegar flóðið hreif það á brott og heilu fjölskyldurnar voru fastar án undankomuleiðar í bílakjöllurum með börn sín og fjölskyldu.

 

Skjáskot úr myndbandinu óhugnanlega sem var seinasti bílinn sem slapp úr bílakjallar undir verslunarmiðstöð

í þessu skjáskoti má sjá hvernig flóðið sópaði með sér bílum eins og ekkert væri

Mynd af venjulegri götu í Valencia héraði

 

Fyrsti dagur flóðanna

Joseph segir að þegar á fyrsta degi hafi fjölmiðlar gert lítið úr ástandinu og sagt frá að flóð hafi átt sér stað í héraðinu en reynt að draga úr raunverulegum afleiðingum og mannfalli.

Hann reyndi að hafa samband við vini og vandamenn á svæðinu en án árangurs svo hann fyllti bakpoka af vistum og gekk í nokkrar klukkustundir þar til hann kom að hamfarasvæðinu.

„Ekkert af þessu kom fram í fréttunum sem reyndu eftir bestu getu að draga úr mannfallinu.“

Hann segir frá ferðalagi sínu en á leiðinni voru bílahrúgur sem flóðið hafði skilið eftir, fólk grátandi í örvæntingarfullri leit að ástvinum og börnum sínum og hann hafi oft á tíðum vaðið vatn og drullu upp að mitti til þess að komast áleiðis.

Svo gerðist það sem hann segir að muni ásækja hann það sem hann á eftir ólifað en hann fór að sjá lík hvert sem litið var og þau rákust í hann þar sem hann óð í djúpu vatni og störðu á hann úr bílum þar sem fólk hafði látist, innilokað í bílum sínum.

„Ekkert af þessu kom fram í fréttunum sem reyndu eftir bestu getu að draga úr mannfallinu.“ segir Joseph.

Hann lýsir því hvernig íbúar voru algjörlega á eigin vegum á svæðinu og að engin hjálp hafi borist, engin lögregla hafi mætt á svæðið, herinn hafi hvergi verið sjáanlegur og engar björgunarsveitir mættu á svæðið.

Eftir langt ferðalag komst hann til Alfafar þar sem hann komst að því að fjölskylda hans hafði verið ein af þeim heppnu og voru öll á lífi en þau höfðu misst aleiguna þar sem bílar þeirra höfðu skolast á haf út, hús þeirra voru gjörónýt og vatnið hrifið allar eigur þeirra á brott.

Heimili fjölskyldu Josephs

Joseph tók þessa mynd af svæðinu.

Önnur mynd sem tekin er af svæðinu

Til að lýsa aðstæðum á svæðinu segir Joseph að ekkert rafmagn var á svæðinu, ekkert símasamband, ekkert rennandi vatn, enginn matur og engin hjálp hafi borist frá yfirvöldum dögum saman og allir voru þaktir leðju frá toppi til táar.

Öll fyrsta nóttin segir hann að hafi farið í að hjálpa vinum og ættingjum að einfaldlega halda lífi en ekkert skjól var að finna fyrir kuldanum og ísköldu vatninu sem lá allsstaðar.

Dagur 2 – Helvíti á Jörð

Joseph segir að þrátt fyrir svefnlausa nótt og örmögnun þá hafi fyrsti dagurinn ekki verið neitt í samanburði við það sem koma skyldi því svæðið hafi svo breyst í helvíti á Jörð.

Þúsundir sjálfboðaliða sem voru að mæta fótgangandi á svæðið gátu engan veginn ráðið við þær aðstæður sem myndast höfðu, þrátt fyrir að vera allir af vilja gerðir en spænski herinn var hvergi sjáanlegur með þær þungavinnuvélar sem nauðsynlegar voru fyrir slíkar aðstæður.

„Við erum þau heppnu, við erum á lífi.“

Joseph leggur áherslu á hversu mikilvægur fyrsti sólarhringurinn sé eftir slíkar hamfarir en fólk sat fast í bílum sínum, í bílakjöllurunum, undir húsarústum og leðju og gátu sjálfboðaliðar bjargað sumum þeirra en öðrum var ekki hægt að bjarga vegna skorts á búnaði.

Hann lýsir því hvernig æðruleysi fólks sem misst hafði allt í hamförunum kom honum á óvar því fólk endurtók í sífellu „Tenim Sort, este vius“ sem þýðir á íslensku „Við erum þau heppnu, við erum á lífi.“

Þegar þarna var komið lýsir Joseph því að lík hafi legið eins og hráviður á götum úti og margir höfðu enn ekki heyrt neitt frá ástvinum sínum og enga hugmynd um hvort þeir væru lífs eða liðnir.

Íbúar reyna eftir bestu getu að taka til á svæðinu

Hann lýsir því hvernig hann reyndi að hjálpa móður sem hafði skilið börn sín eftir hjá vinafólki meðan hún fór að versla og nú var ekkert þeirra sjáanlegt og hún leitaði að börnunum sínum en óttaðist það versta og aðrir foreldrar voru í svipaðri stöðu því skólar höfðu verið opnir þennan dag vegna þess að yfirvöld vanræktu að koma viðvörunum til fólks á svæðinu eins og Nútíminn hefur áður greint frá.

Aðstæður versna til muna

Greinilegt var þó að ekki höfðu allir sem mættu á svæðið gott í hyggju því þegar þarna var komið sögu voru aðilar sem byrjuðu að ræna og rupla öllu lauslegu.

Joseph segir að hann gæti skilið ef fólk myndi reyna að stela mat og vatni í örvæntingu sinni en þarna hafi verið um að ræða raftæki og allt sem ekki hafði eyðilagst í flóðinu.

Þegar myrkur skall á var varla ljósglætu að finna á svæðinu og Joseph lýsir algjörri vargöld sem skall á í myrkrinu.

„Fólk barðist með hnífum á götum úti og reyndi að komast yfir allar þær vistir sem hægt var.“ segir Joseph sem lýsir því hvernig fólk reyndi að leita skjóls fyrir þeim sem höfðu illt í hyggju og að svæðið hafi verið eins og átakasvæði, laust við öll lög og alla reglu og yfirvöld sem áttu að passa upp á fólkið voru hvergi sjáanleg.

Dagur 3

Þrátt fyrir þetta tókst Joseph að festa svefn í um tvær klukkustundir, enda orðinn algerlega örmagna á þessum tímapunkti en hann hélt upp í bækistöð sem búið var að setja upp til að skipuleggja hjálparstarf á svæðinu.

Þar segir hann að algjört skipulagsleysi hafi ríkt og að fólk sem reyndi að taka stjórnina á svæðinu hafi æpt hvert ofan í annað en á þessum tímapunkti hefði herinn átt að vera mættur á svæðið til að sjá um að dreifa vistum og aðstoða íbúa en ennþá var hann hvergi sjáanlegur.

Joseph hafi endað á að taka stjórnina á svæðinu og séð um að skipuleggja starfið og dreifa þeim vistum sem bárust á svæðið en allar neyðarvistir sem bárust á svæðið voru gefnar af óbreyttum borgurum og fluttar á svæðið af óbreyttum borgurum án aðkomu yfirvalda sem enn drógu fæturna í málinu!

Þess má geta að Íslendingar á svæðinu létu sitt ekki eftir liggja og mættu með bíl fullan af vistum sem Íslendingarnir höfðu keypt og gefið fyrir fórnarlömb flóðanna.

Sjálfboðaliðar hafi séð til þess að safna vistum og halda straum matvæla gangandi inn á svæðið og er ljóst að það bjargaði mörgum lífum.

Heimamenn mættu svo á dráttarvélum til að fjarlægja stærri hluti af svæðinu en undir bílum og undir grjóti fundu þeir svo enn fleiri lík.

Joseph ítrekar að allt það þrekvirki og hjálparstarf sem unnið var á svæðinu hafi verið framkvæmt af sjálfboðaliðum og yfirvöld ennþá ekki látið sjá sig á þriðja degi.

Hann segir að það sé grátlegt að í Valencia héraði sé NATO með stóra herstöð þar sem 2500 hermenn séu staðsettir en þeir fengu aldrei skipun um að mæta á svæðið þrátt fyrir að margir þeirra eru sagðir hafa óskað eftir leyfi til að fara og hjálpa til.

Létu ekki boð og bönn stöðva sig í að hjálpa

Hann lýsir því og birtir myndir af því hvernig franskar björgunarsveitir sem vanar eru slíku björgunarstarfi hafi mætt á svæðið á undan öllum spænskum yfirvöldum en þær eru einnig mannaðar sjálfboðaliðum og mættu á svæðið eins fljótt og þeir gátu til þess að hjálpa.

Það er þó ljóst að aðgerðaleysi yfirvalda stafaði ekki af vanþekkingu á neyð fólks því hundruðir lögreglumanna, slökkviðliðsmanna og hermanna frá borgum og bæjum í nágrenninu mættu á svæðið óeinkennisklæddir til að aðstoða þrátt fyrir að hafa verið bannað að fara á svæðið!

Dagur 4

Joseph segir að á fjórða degi hafi verið komið skipulag á það svæði sem aðgengilegt var fyrir hjálparstörf en þrátt fyrir stanslausa vinnu sjálfboðaliðanna voru enn heilu hverfin sem voru óaðgengileg og ekki hægt að komast að því það þurfti þungavinnuvélar til að hreinsa burtu þau mörgu tonn af leðju og grjóti sem fyrir voru.

„Where the fuck is the army?“

Spænski herinn er sérþjálfaður til að bregðast við slíkum aðstæðum og er með þau tæki sem þarf til að sinna björgunaraðgerðum sem þessum en hann var hvergi sjáanlegur enn á fjórða degi þó að nú væru slökkvilið og lögregla smám saman að mæta á svæðið.

Það hafi hvergi dugað til en enn var fólk að finnast, sérstaklega gamalmenni og börn, sem föst höfðu verið í íbúðum og bílum allan þennan tíma án þess að fá vott né þurrt.

Joseph lýsir því að nú þegar fréttir af ástandinu byrjuðu að berast hafi þúsundir sjálfboðaliða streymt á svæðið til að hjálpa sem kepptist við að aðstoða hvert annað og að allt sem gert var hafi verið gert án aðkomu yfirvalda, bara gott fólk að hjálpa hverju öðru.

Þúsundir sjálfboðaliða streyma á svæðið

„El pueblo salva el pueblo,“ er máltæki sem er vinsælt á Spáni en gróf þýðing á því er að þorpsbúa hjálpa hver öðrum því þeir geta ekki reitt sig á neinn annan.

Aftengd umheiminum

Joseph lýsir að enn hafi ekkert rafmagn verið komið á svæðið og ekkert síma- eða netsamband og þess vegna hafi fólk á svæðinu ekki haft hugmynd um hvað verið væri að segja um atburðina í fjölmiðlum.

Hann segir þó að tilfinningin sem gripið hafi fólk á svæðinu hafi verið sú að þau væru yfirgefin og gleymd umheiminum og að þreyta og bugun hafi verið byrjuð að víkja fyrir reiði í garð yfirvalda sem hafi brugðist á ögurstundu.

Nútíminn greindi frá því að yfirvöld hafi ekki sent aðvörun til fólks fyrr en 8 klukkustundum eftir að fyrsta flóð skall á svæðinu og heilum 10 klukkustundum eftir að spænska veðurstofan varaði við mögulegum ofsaflóðum.

Dagur 5 – Spánarkonungur kemur í heimsókn

Nútíminn sagði frá því þegar konungur Spánar kom til svæðanna sem verst höfðu orðið úti og varð fyrir aðkasti íbúa sem köstuðu í hann leðju og hópur hans kallaðir morðingjar.

Joseph segir að þarna hafi fjölmiðlar brugðist algerlega því reiði fólksins hafi í engu beinst að spánarkonungi heldur að forsætisráðherra landsins, Pedro Sanchez og héraðsstjóra Valencia, Carlos Mazon.

Joseph útskýrir hvernig bæði konunuirinn og drottningin séu einskonar táknrænar stöður á Spáni sem skorti raunveruleg völd og þetta viti allir Spánverjar.

Hinir tveir séu hins vegar þeir sem hafi brugðist á allan mögulegan hátt og hafi átt fótum sínum fjör að launa í raun og þurft að flýja svæðið þegar þeir gerðu sér grein fyrir reiði fólksins.

Íbúar réðust að bíl Pedro Sanchez og kölluðu hann morðingja (skjáskot)

Konungurinn og drottningin hafi hins vegar verið lengur á svæðinu og talað við og huggað íbúa og segir Joseph að þarna hafi þau mætt fyrstu mennsku og fyrstu tilfinningu um að þau skipti einhverju máli síðan hamfarirnar hófust og hann hrósar konungshjónunum fyrir það hvernig þau komu fram við þegna sína og að íbúar hafi kunnað að meta þeirra framlag.

Drottningin faðmar íbúa á svæðinu

Spánarkonungur og drottning létu leðjukastið ekki stöðva sig og reyndu að hugga íbúa

Hann segir að það verði að hafa í huga þær raunir sem íbúar á svæðinu höfðu gengið í gegnum á þessum tímapunkti, en allt líf þeirra hafi horfið á einu bretti, allir höfðu annaðhvort misst einhvern ástvin eða þekktu einhvern sem hafði misst ástvin, í flóðunum og að soðið hafi uppúr þegar stjórnmálamenn ætluðu að mæta á svæðið til að fá mynd af sér fyrir fjölmiðla en hann segir þessa menn ekki eingöngu hafa sleppt því að hjálpa heldur komið í veg fyrir að aðstoð hafi borist.

Allt sem gat brugðist brást

Joseph segir að álit fólks sé að með aðgerðarleysi sínu séu yfirvöld ábyrg fyrir mörgum þeirra lífa sem glötuðust í hamförunum og reiðin á Spáni sé mikil vegna þessa.

Hann segir fjölmiðla keppast við að fegra ástandið í fréttum og ástandið sé mun verra enn þann dag í dag en málað er upp af yfirvöldum.

Joseph segir að tala látinna sé mun hærri en yfirvöld gefa upp og sú tala sé ekki bara örlítið hærri heldur margfalt hærri.

Joseph rekur fréttir af svæðinu en í þeim er sagt að herinn hafi mætt strax á svæðið, að búið væri að ná stjórn á ástandinu á flóðasvæðunum, að neyðaraðstoð gengi vel og að að svæðið hefði sloppið mun betur en leit út fyrir í fyrstu.

Sjálfboðaliðar að störfum

Hann ítrekar að ef ekki væri fyrir samfélagsmiðla kæmust fjölmiðlar upp með lygar sínar og segir að verk sitt eftir að búið sé að ná stjórn á ástandinu sé að segja sögu sína og þeirra sem illa hafi orðið úti í hamförunum á sem stærstum vettvangi, heimurinn þurfi að vita hvernig yfirvöld hafi brugðist í einu og öllu.

Hann þakkar öllum þeim sem mættu á svæðið til að hjálpa fyrir framlag sitt og að án þeirra hefðu enn fleiri látist í kjölfar flóðanna en segir málinu hvergi nærri lokið og að þeir sem brugðust verði dregnir til ábyrgðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing