Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í París hafa beðið kaþólikka og aðra sem eru kristinnar trúar innilega afsökunar á atriðinu umdeilda sem birtist á opnunarhátíð Ólympíuleikanna.
Atriðið var einskonar skopstæling á verkinu Seinasta Kvöldmáltíðin eftir Leonardo DaVinci og sagði Thomas Jolly, listrænn leikstjóri sýningarinnar, að það hafi aldrei verið ætlun neins að móðga eða gera grín að neinum heldur senda skilaboð sameiningar og ástar.
Samskiptastjóri leikanna tók í sama streng og sagði að það hafi ekki verið ætlun leikanna að móðga eða gera grín að trúarhóp heldur fagna fjölbreytileikanum.
Atriðið umdeilda vakti ekki bara reiði einstaklinga heldur lýsti kaþólska kirkjan í Frakklandi vandlæti sínu á atriðinu sem hún kallaði „smekklaust háð á kristinni trú.“
Mörg önnur samtök hafa gert slíkt hið sama og hefur ítalska kirkjan sent frá sér þau skilaboð að það hafi verið mjög slæm byrjun á leikunum að gera grín að yfir milljarði kristinna manna.
Hver viðbrögðin verða við afsökunarbeiðninni á eftir að koma í ljós.