Auglýsing

Skýrsla World Parent Organization – Mæður beita oftar ofbeldi en feður á Norðurlöndum

Í nýrri skýrslu frá samtökunum World Parents Organization ásamt rannsóknum frá Barnaráði Danmerkur  komast rannsakendur að þeirri niðurstöðu að mæður beiti í raun oftar ofbeldi en feður innan veggja heimilisins á Norðurlöndum.

Rannsóknin, sem byggir á svörum 4.039 barna í sjöunda bekk í Danmörku, er sögð sýna fram á að börn upplifi ofbeldi oftar af hálfu mæðra heldur en feðra.

Í skýrslunni er einnig sýnt fram á að algengustu hugmyndir okkar um heimilisofbeldi endurspegli ekki alltaf raunveruleikann enda séu þar konur, samkvæmt gögnum, sem oftar séu gerendur en áður hefur verið talið.

Þrátt fyrir að opinber stefna og umræðan hafi lengi beinst að ofbeldi karla gegn konum segja samtökin að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að karlar og börn séu einnig stór hópur þolenda sem oft vilji gleymast í umræðunni.

Skjáskot úr skýrslunni

Sérfræðingar sem komu að gerð skýrslunnar vara við því að sú fyrirfram ákveðna mynd sem fólk hefur haft af heimilisofbeldi geti leitt til mismununar í réttarkerfum þar sem ásakanir gegn körlum séu teknar alvarlegar, án fullnægjandi sönnunargagna, á meðan ofbeldi af hálfu mæðra sé oft ekki rannsakað til fulls.

Dulin mismunun gegn feðrum

Í skýrslunni er greint frá því að þrátt fyrir að samfélagsleg umræða snúist oftast um ofbeldi gegn konum, sýni rannsóknir að ofbeldi gegn körlum sé oftar dulið og ekki skráð í opinber gögn.

Í skýrslunni er bent á að fjölskyldudómstólar og fjölskylduréttur hygli mæðrum í umgengnismálum í mörgum tilvikum, jafnvel þótt feður hafi verið aðal umönnunaraði eða með sameiginlegt forræði barna sinna.

Feður missa tengsl við börnin sín

Í skýrslunni er því haldið fram að niðurstöður könnunar á 1.200 feðrum í norrænum löndum varpi ljósi á þá stöðu sem margir feður standa frammi fyrir í forræðis- og umgengnismálum eftir skilnað. Þar kemur meðal annars fram að:
• 86% feðra vildu skipta búsetu en aðeins 15% fengu hana.
• 68% vildu sameiginlega forsjá en aðeins 9,6% fengu hana.
• 29% feðra voru sviptir umgengni við börn sín þrátt fyrir að aðeins 1,4% hafi verið viljugir til að slíta samskiptum.

Í skýrslunni er því einnig haldið fram að feður lendi oftar í aðstæðum þar sem móðir getur einfaldlega neitað sameiginlegri forsjá, sem leiðir til þess að feður missi tengsl við börn sín.

Í mörgum tilvikum eru einnig settar fram ásakanir mæðra um andlegt ofbeldi feðra án sannanlegra gagna að því er fram kemur í skýrslunni en þar segir einnig að aðeins 5% slíkra mála séu tilkynnt til lögreglu og aðeins 1% þeirra leiða til lögreglurannsókna eða dómsmála sem taka fyrir sannleiksgildi ásakananna.

Ný lög gegn foreldraútilokun í Danmörku

Í Danmörku hafa stjórnvöld brugðist við þessari áskorun með nýrri löggjöf, en hún tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Samkvæmt lögunum hefur foreldraútilokun nú verið formlega skilgreind sem andlegt ofbeldi og fjölskyldudómstólar þurfa hér eftir að tryggja að börn fái að njóta samvista við báða foreldra innan fjögurra vikna frá því að mál eru hafin.

Sé það ekki mögulegt skal ákvörðun tekin innan fjögurra mánaða um framtíðarfyrirkomulag forsjár og umgengni.

Þörf á lagabreytingum á alþjóðavísu

World Parents Organization varar við því að fjölskyldulög sem hygli öðru foreldrinu á grundvelli kyns geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir börn og leitt til ofbeldis. Undirstrika þau einnig þá miklu andlegu vanlíðan sem fylgt geti í kjölfarið hjá þeim börnum sem fyrir slíku verða.

Í skýrslunni eru Sameinuðu þjóðirnar og þjóðarleiðtoga hvattir til að endurskoða lög um fjölskyldumál og tryggja jafnrétti foreldra þar sem lögð er áhersla á að börn eigi rétt á samvistum við báða foreldra, nema í tilvikum þar sem sannanlegt ofbeldi eða vanræksla eigi sér stað.

„Ofbeldi innan fjölskyldna er alvarlegt samfélagsvandamál en á því verður að taka með sannleika og jafnrétti að leiðarljósi.

Ásakanir sem ekki byggi á sönnunum geti eyðilagt líf bæði barna og foreldra og því þarf að tryggja að réttarkerfið verndi í raun fórnarlömb ofbeldis, frekar en að skapa ójöfnuð á grundvelli kyns,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing