Blaðamaðurinn skeleggi, Stefán Einar Stefánsson, er ekki hress með nýja atvinnuauglýsingu sem birtist nýlega, en í henni er verið að auglýsa eftir framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Íslands.
Stefán Einar var af mörgum talinn vera einn af hápunktum nýafstaðinna kosninga en viðtöl hans voru beitt og höfðu töluverðar afleiðingar fyrir marga frambjóðendur.
Stefán sparar ekki stóru orðin þegar hann segist hlakka til að sjá hvaða „jólasvein stjórn þessarar óstofnunar“ komi til með að skipa í embættið.
Atvinnuauglýsingin birtist í Morgunblaðinu, en í starfslýsingunni segir meðal annars að Mannréttindastofnun Íslands muni vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins.
Lífleg umræða skapaðist
Undir færslunni spyr Björn Leví, fyrrum þingmaður Pírata, af hverju Stefáni finnist þetta ömurlegt og Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, spyr hvort þetta sé í boði Sjálfstæðisflokksins.
Stefán Einar svarar Birni Leví með því að segja að nú þegar séu til staðar embætti og stofnanir sem hafi í raun sama hlutverk, að sjá til þess að mannréttindi séu virt.
„Ömurlegur, algjörlega tilgangslaus fjáraustur í boði Sjálfstæðisflokksins. Ein af ástæðum þess að fjölmargir sneru baki við flokknum í síðustu kosningum.“
Máli sínu til stuðnings nefnir Stefán lögregluna, saksóknaraembættin, dómstóla, kærunefndirnar óteljandi, umboðsmann barna, umboðsmann Alþingis, Jafnréttindastofu, Fjölmiðlanefnd, umboðsmann skuldara og segir að svona mætti lengi telja.
Hann segir einnig að sú þjónusta sem stofnunin á að veita í formi ráðgjafar og leiðbeininga sé nú þegar hlutverk sem lögmannastofur eiga að gegna og að rannsóknir á sviði mannréttinda, sem stofnunin á að sinna, sé þegar sinnt af prófessorum í háskólum landsins sem stika göturnar á kostnað skattgreiðenda.
Björn Leví svarar því til að þær stofnanir sem til eru hafi nú oftar en einu sinni brotið á þeim mannréttindum sem þeim ber að vernda.
Stefán spyr þá Björn í sínu lokasvari til hans hvort ný stofnun verði svo sett á laggirnar þegar Mannréttindastofnun byrjar að gera slíkt hið sama.
Færslu Stefáns í heild sinni er hægt að sjá hér fyrir neðan.