Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir var einkabarn foreldra sinna en fyrir þeirra hjónaband átti mamma hennar tvær dætur. Mamma hennar var leikkona og segir Steinunn að hún hafi verið mjög upptekin af leikhúsinu en pabbi hennar var bókmenntafræðingur.
Steinunn fór sjálf í leiklistarnám og hefur starfað að mestu við það í gegnum lífið en látið til sín taka á ýmsum öðrum sviðum líka.
Steinunn var gestur Kiddu Svarfdal í þættinum Fullorðins, hjá Brotkast. Þar ræddu þær mjög margt og fóru til að mynda yfir edrúmennsku Steinunnar en hún hætti að drekka árið 2012.
„Ég fann það að áfengi gerði bara ekkert fyrir mig. Ég var náttúrulega alveg rosalegur slarkaradjammari þegar ég var yngri og vinnuhestur, og djammhestur og tileinkaði mér ekkert sérstaklega góða lífshætti. Ég bara þrælaði mér út og var þar sjálf minn mesti þrælahaldari og 2012 þegar ég tók þá ákvörðun að fara í meðferð og hætta að drekka hafði ég vitað það í svona 10 ár að áfengi væri ekki gott fyrir mig,“ segir Steinunn í viðtalinu og segir að hún hafi í raun ekki haft gaman að því að drekka áfengi lengur.
„Það er alveg vitað að áfengi er bölvaður skaðvaldur fyrir okkur og er ekki gott fyrir líkamann og ekki síður vont fyrir sálina og er mikill þunglyndisvaki. Ég var farin að upplifa depurð í fyrsta skipti í lífinu, svona depurð sem ég komst ekki útúr og lifði alvöru klínískt þunglyndi um tveggja ára skeið og þegar við fluttum til Íslands tók ég þessa ákvörðun að fara í meðferð,“ segir Steinunn í þessu einlæga viðtali.
Fáðu þér áskrift og sjáðu alla þætti á Brotkast í fullri lengd inni á brotkast.is/askrift