Á þessum degi, þann 24. september 1991, gaf hljómsveitin Nirvana út sína sögufrægu breiðskífu, Nevermind, sem átti eftir að umbylta tónlistarheiminum og rúmlega það. Það sem byrjaði sem jaðarrokk frá Seattle varð á augabragði að alþjóðlegri byltingu. Þeir Kurt Cobain, Krist Novoselic og nýi trommarinn þeirra, David Grohl, fóru úr því að vera meðlimir óþekktrar gruggsveitar frá smábænum Aberdeen í það að verða alþjóðlegar súperstjörnur.
Byrjunin í Madison – Butch Vig við stjórnvölinn
Eftir vel heppnaða en tiltölulega óþekkta útgáfu plötunnar Bleach árið 1989 voru meðlimir Nirvana tilbúnir að taka næsta skref. Í apríl 1990 komu Kurt Cobain, Krist Novoselic og þáverandi trommari Chad Channing til Madison, Wisconsin, til að vinna með framleiðandanum Butch Vig í Smart Studios, að tillögu Bruce Pavitt frá indí-plötufyrirtækinu Sub Pop. Vig hafði unnið með böndum eins og Smashing Pumpkins og Killdozer, sem leiddi til þess að Nirvana taldi hann rétta manninn til að hjálpa þeim að ná fram hljóði sem væri hrátt og kraftmikið.
Chad Channing hættir, leitin að nýjum trommuleikara
Þrátt fyrir að upptökur í Madison hafi gengið vel, var spenna milli Kurt Cobain og Krist Novoselic annars vegar og Chad Channing hins vegar. Þeir voru ósammála um trommuleik hans og hvernig lögin ættu að hljóma, sem leiddi til þess að Channing hætti í hljómsveitinni sumarið 1990 eftir upptökuferlið.
Nirvana prófaði nokkra trommuleikara á meðan, þar á meðal Dale Crover úr Melvins og Dan Peters úr Mudhoney. En það var ekki fyrr en þeir fengu Dave Grohl, fyrrum trommara hljómsveitarinnar Scream, að þeir töldu soig hafa fundið rétta manninn. Kurt Cobain lýsti viðbrögðum sínum þannig: „Þetta var í fyrsta skipti sem við upplifðum okkur sem alvöru band, þetta varð loksins rétt samsetning.“
„Smells Like Teen Spirit“ kveikir byltingu
Eftir að Dave Grohl kom í hljómsveitina, hófu þeir upptökur á plötunni Nevermind í Sound City Studios í Van Nuys í Kaliforníu, í maí 1991, enn með Butch Vig við stjórnvölinn. Með 65.000 dollara fjárhagsáætlun tók hljómsveitin plötuna upp á aðeins nokkrum vikum, en lagið sem átti eftir að breyta öllu var auðvitað „Smells Like Teen Spirit“.
Lagið var spilað opinberlega í fyrsta sinn á tónleikum í OK Hotel í Seattle þann 17. apríl 1991. Það var þó ekki fyrr en tónlistarmyndband lagsins fór í massa spilun á MTV í september 1991, sem „Smells Like Teen Spirit“ sprakk út og varð að táknmynd grunge-byltingarinnar. Lagið fór frá því að vera „kynningarlag“ fyrir plötuna yfir í að verða heimsfrægur þjóðsöngur heillrar kynslóðar.
Söguleg útgáfa: Nevermind toppar listana
Platan Nevermind kom út 24. september og þó að upphaflegar væntingar hafi verið hóflegar (Plöturisinn Geffen vonaðist til að hún myndi selja um 250.000 eintök), þá má segja að hún hafi sprungið út innan nokkurra mánaða. Með lögum eins og „Come As You Are,“ „Lithium,“ og „In Bloom,“ náði platan til breiðs hóps áheyrenda. Þann 11. janúar 1992 náði Nevermind toppsætinu á Billboard-listanum, þar sem hún velti sjálfum Michael Jackson og plötu hans Dangerous af toppnum. Nirvana höfðu náð árangri sem fáir gátu hafa séð fyrir.
Arfleifðin sem lifir áfram
Í meira en þrjátíu ár hefur Nevermind staðið sem eitt af meistaraverkum rokksögunnar. Platan var ekki bara vinsæl – hún breytti tónlistarheiminum og opnaði dyr fyrir heilu bylgjuna af „alternatífum“ hljómsveitum til að ná alþjóðlegum árangri. Lög eins og „Smells Like Teen Spirit,“ „Lithium,“ og „Come As You Are“ eru enn spiluð í dag og lifa áfram sem tákn fyrir uppreisn og frelsi heillrar kynslóðar.
Í meðfylgjandi klippu talar Butch Vig um búnaðinn, lagasmíðina og upptökuferlið fyrir Nevermind. Við mælum eindregið með áhorfi á þessa tímalausu klassík:
– Steindór Þórarinsson