Ástralski læknirinn Richard Scolyer hefur gengist undir heimsins fyrstu meðferð við glioblastoma, sem er tegund af heilakrabbameini sem er sérlega skæð en sú tegund sem Scolyer var með er svo skæð að fæstir lifa af heilt ár með því.
Ár er liðið síðan Scolyer, sem er þekktur innan læknasamfélagsins fyrir byltingarkenndar rannsóknir á sortuæxlum, gekkst undir meðferð sem hann sjálfur hannaði en hann byggði meðferðina á eigin rannsóknum á sortuæxlum.
Á þriðjudaginn fyrir viku síðan fór svo Scolyer í skimun og fundust engar leifar af krabbameininu.
„Ég hef aldrei verið svona taugaóstyrkur fyrir nokkrum hlut. Ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Scolyer í viðtali við BBC.
Scolyer er einn virtasti fræðimaður Ástralíu í læknavísindum og var meðal annars valinn maður ársins í Ástralíu í ár ásamt kollega sínum Georginu Long, fyrir vinnu þeirra við meðferðum á sortuæxlum.
Hann segir að þó ekki sé hægt að fullyrða að krabbameinið sé læknað að þá sé það mikill léttir að ekkert finnist af því eins og er. Hann muni taka einn dag í einu og njóta þess að vera á lífi með konu sinni og þremur börnum.