Auglýsing

Þingmaðurinn ofurölvi á KíKí

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata dó áfengisdauða inni á salerni skemmtistaðarins KíKí á laugardagsmorgun. Þegar dyraverðir skemmtistaðarins fóru að kanna hvers vegna salernið hafði verið læst í svo langan tíma, þar sem vísa átti gestum út vegna lokunar, komu þeir að þingmanninum og vöktu hann. Arndísi Önnu hefur greinilega brugðið við þetta, eins og hún greinir frá sjálf, og brást hún því hin versta við og þess vegna var kallað eftir aðstoð lögreglu.

„Dyraverðir á skemmtistað í miðbænum óska eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja ofurölvi aðila af staðnum.“

Þingmaðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en svo sleppt þegar í ljós kom að skemmtistaðurinn vildi ekki leggja fram kæru auk þess sem hann hafði ekki ollið líkamstjóni eða eignaspjöllum á staðnum. Þetta hefur Nútíminn fengið staðfest frá heimildarmönnum innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan greinir frá atvikinu

Greint er frá málinu í dagbók lögreglu, sem allir fjölmiðlar fá senda hvern einasta morgun og eftirmiðdag. Í bókun lögreglu á laugardagsmorgun stendur orðrétt: „Dyraverðir á skemmtistað í miðbænum óska eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja ofurölvi aðila af staðnum.“

Umrædd bókun á sér stað 04:49 en samkvæmt reglugerð Reykjavíkurborgar um opnunartíma vínveitingastaða þá á KíKí að loka klukkan 04:30 um helgar. Það fer heim og saman með þeim upplýsingum sem Nútíminn hefur undir höndum. Loka átti staðnum þegar í ljós kemur að Arndís Anna var áfengisdauð inni á salerni staðarins.

Óljós yfirlýsing gefur vísbendingu

Þá segir ennfremur í bókun lögreglu: „Aðilinn var fluttur á lögreglustöð en þá kom í ljós að engar kröfur voru á hendur honum og aðilinn því laus.“ Sú bókun passar einnig við lýsingu þingmannsins en Arndís Anna skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún lýsti málavöxtum – hún fór þó ekki dýpra í lýsingar á atvikinu en að hún hafi verið búin að vera á salerninu „…sjálfsagt í talsverðan tíma þegar dyraverðir opna hurðina.“

Nútíminn hefur óskað eftir viðtali við Arndísi Önnu vegna málsins og er beðið eftir svari.

Yfirlýsing Arndísar Önnu í heild sinni:

Ég brá mér á skemmtistað á föstudagskvöld, eins og gengur og gerist, og fór á einn minn uppáhaldsstað, Kiki. Ég fór á salernið og var búin að vera þar sjálfsagt í talsverðan tíma þegar dyraverðir opna hurðina. Mér brá við þetta og við að það stæði til að bera mig út með valdi, þegar mér fannst ekki tilefni til. Ég hef skilning á því að starf dyravarða á skemmtistöðum sé erfitt og ekki síst með fullt hús af fólki í misjöfnu ástandi, þó mín upplifun hafi verið sú að þarna hafi framganga þeirra verið óþarflega harkaleg og niðurlægjandi. Ég hef talað við fyrirsvarsmann staðarins sem bað mig afsökunar fyrir þeirra hönd, sem mér þykir afar vænt um.

Ég er enn fremur þakklát lögreglunni fyrir þeirra viðbrögð og fagmennsku, og fyrir alúðina sem þau sýndu mér í kjölfarið, enda komst ég í talsvert uppnám við þessar aðfarir. Það að lögreglan taki útkall frá hinsegin skemmtistað alvarlega, hvers eðlis sem það er, og bregðist svona skjótt við er sérstaklega mikilvægt og yljaði það mér um hjartaræturnar í öllum þessum ósköpum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing