Fjöldi Íslendinga heimsækir kirkjugarða landsins yfir hátíðarnar til að minnast ástvina sinna. Stór hluti þeirra kveikir á sérstökum friðarkertum sem fást á hinum ýmsu stöðum, meðal annars í matvöruverslunum, en þar er hægt að fá þau í ýmsum stærðum og gerðum. Vinsælustu tegundirnar eru rafhlöðuknúin LED-ljós en svo einnig þessi hefðbundnu útikerti í járndósum sem veita skjól.
Í langflestum tilfellum fá þau að standa óáreitt í kirkjugörðunum en þó kemur það fyrir endrum og eins að þeim er stolið. Nútíminn ræddi við einn sem fór í gærmorgun, jóladag, að heimsækja leiði ástvina sinna með friðarkerti en síðar um daginn var það horfið.
Vonar að jólaandinn grípi þá fingralöngu
„Já, ég fór með tvö kerti sama dag og þau voru bæði tekin,“ sagði maðurinn í samtali við Nútímann. Hann hafði aldrei lent í þessu áður og fannst ömurlegt að einhverjir skyldu taka þau ófrjálsri hendi á ókunnugu leiði.
„Ætli þessir aðilar hafi nokkuð haft efni á friðarkerti fyrir ástvini sína, ég veit það ekki. Mér datt í hug að merkja þau fyrir næsta ár. Það er kannski ekkert svo vitlaus hugmynd. Ótrúlegt samt að það þurfi yfir höfuð,“ sagði maðurinn sem vonaðist þó til þess að jólaandinn næði að trompa löngunina til að stela yfir hátíðarnar.
En það eru fleiri sem vona að jólaandinn grípi fólk yfir hátíðarnar – eins og Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma en Nútíminn sló á þráðinn til hans og spurði hvort mikið væri um þjófnaði í þeim kirkjugörðum sem undir hann falla.
„Ég er tiltölulega nýbyrjaður en þetta eru önnur jólin mín sem framkvæmdastjóri. Ég hef ekki heyrt mikið af kvörtunum, sem betur fer, en auðvitað hafa hlutir horfið úr kirkjugörðunum.“
Hefur gengið vel hjá þínum starfsmönnum þessa jólahátíð?
„Já þetta hefur gengið ljómandi vel og ég hef ekki heyrt annað. Það hefur líka verið þokkalegasta veður en það er reyndar mikill snjór núna. Við mokum í fyrramálið og þá ættu allir að komast að leiðum ástvina sinna án teljandi vandræða,“ sagði Ingvar og bætti við að góður andi hafi verið allstaðar og ákveðin „jólastemning“ ef svo mætti að orði komast.
En hvað er algengast að fólk noti til að skreyta leiðin?
„Það er orðið mjög algengt að fólk sé með rafhlöðuknúna krossa með LED-ljósum. Þeir eyða minna rafmagni. Svo höfum við verið með verktaka sem hafa aðstoðað þá sem eru með ljós sem ganga fyrir rafmagni. Þá höfum við einnig verið að leggja áherslu á að fólk noti umhverfisvænar skreytingar. Það var og er í einhverjum tilfellum mikið af skreytingum úr plasti og eftir hátíðarnar eru nokkur tonn af rusli sem falla til. Við höfum verið með starfsmenn að flokka þetta og reynum að gera það eins vel og við getum. Samfélagið okkar er að breytast þegar það kemur að þessu og við erum með vel merktar flokkunartunnur núna í kirkjugörðunum sem voru ekki áður og fólk er að taka vel í það.“