Bandaríkjastjórn flutti yfir 200 ólöglega innflytjendur til El Salvador snemma á sunnudagsmorgun, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að dómari hafði fyrirskipað tímabundið bann við brottvísunum.
Dómarinn James Boasberg hafði úrskurðað á laugardagskvöld að notkun Trump á fornri stríðslöggjöf frá 18. öld – sem aðeins hefur verið beitt þrisvar í sögu Bandaríkjanna – krefðist frekari dómsmeðferðar.
Hins vegar upplýstu ríkislögmenn dómarann um að flugvélum fullum af glæpamönnum hefði þegar verið flogið til El Salvador og Hondúras.
Boasberg skipaði munnlega að vélarnar skyldu snúa við, en ekki var tekið fram í skriflegum úrskurði hans að þær yrðu stöðvaðar.
Engu að síður var skipun hans hunsuð.
Forseti El Salvador ánægður
Nayib Bukele, forseti El Salvador og bandamaður Trump, greindi frá því að yfirvöld landsins hefðu tekið við 238 manns.
Í myndbandi sem Bukele birti á samfélagsmiðlum og er sett undir dramatíska tónlist má sjá mennina færða frá flugvélinni af vopnuðum vörðum, flutta með rútum og síðan klædda í fangaklæði.
Þar má einnig sjá þá krúnurakaða og svo lokaða inni í fangaklefum.
Bukele virtist gera gys að dómaranum með færslu þar sem hann skrifaði: „Úps… Of seint 😂“ og deildi myndbandinu.
Hvíta húsið, í gegnum samskiptastjórann Steven Cheung, dreifði myndbandinu enn frekar.
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Pam Bondi, sagði í yfirlýsingu að dómurinn „vanvirði vel staðfesta heimild forsetans“ og setji almenning og löggæslu í hættu.
Elon Musk, ráðgjafi Trump, krafðist þess í færslu á X að Boasberg yrði sviptur embætti.
Lögin umdeild
Brottvísanirnar voru framkvæmdar eftir að Trump beitti Alien Enemies Act frá 1798, sem krefst þess að forsetinn lýsi því yfir að landið sé í stríði.
Undir stjórn Trump var Tren de Aragua, glæpasamtök frá Venesúela, skilgreind sem „innrásarafl“ sem ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Bandaríska mannréttindasamtökin ACLU höfðu höfðað mál til að stöðva brottvísanirnar og héldu því fram að lögunum mættu ekki beita gegn glæpagengi sem væri ekki fullvalda ríki.
Dómari tók undir þá túlkun og setti bráðabirgðabann á brottvísanirnar, en það reyndist of seint.
Fara í Ofurfangelsi El Salvador
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, fagnaði brottvísununum og sagði þær spara skattgreiðendum mikla fjármuni, þar sem El Salvador hefði samþykkt að hýsa glæpamennina í sínum „mjög góðu fangelsum“ gegn sanngjörnu gjaldi en í El Salvador er hið svokallað „ofurfangelsi“ sem er talið eitt öruggasta fangelsi heims.
ACLU hefur óskað eftir skýringum á því hvort Trump-stjórnin hafi brotið gegn dómsúrskurði með þessum aðgerðum.
Hægt er að horfa á myndbandið sem Trump setti inn hér.