Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirritaði á mánudag forsetatilskipun sem snýr við opinberri stefnu um að stuðla að aukinni notkun á papparörum og takmarka plaströr.
Þess í stað mun bandaríska ríkisstjórnin alfarið snúa sér aftur að plastinu þrátt fyrir áhyggjur umhverfissinna.
„Papparör virka ekki“
„Þetta er fáránleg staða. Við förum aftur í plast,“ sagði Trump við undirritun tilskipunarinnar, sem kveður á um að öll opinber innkaup á papparörum verði stöðvuð og að engin slík verði lengur notuð í opinberum byggingum.
Trump sem hefur lengi gagnrýnt papparör, hefur áður gert þau að pólitísku deilumáli og seldi endurnýtanleg plaströr merkt Trump-nafninu í kosningabaráttu sinni 2019.
Með þessari ákvörðun tekur hann algjöra U-beygju frá stefnu Joe Biden, fyrrum forseta, sem hafði fyrirskipað að draga úr opinberum kaupum á plasti, þar á meðal plaströrum, með það markmið að útrýma þeim frá öllum opinberum vinnustöðum fyrir árið 2035.
Plastmengun og umhverfisáhrif
Umhverfissinnar hafa lengi varað við því að plastmengun sé alvarlegt vandamál í heiminum, þar sem einnota plast frá matvælaiðnaði, vatnsflöskum, innkaupapokum og öðrum vörum endar í sjónum í gríðarlegu magni.
Þeir benda á að á hverri mínútu skili magn sem samsvarar einni sorpbifreið af plasti sér í hafið, þar sem það brotnar niður í örplast sem finnst í fiski, fuglum og jafnvel í mannslíkamanum.
Trump gefur þó lítið fyrir þær áhyggjur.
„Ég held að plast hafi ekki mikil áhrif á hákarla þegar þeir eru að borða sig í gegnum hafið,“ sagði hann á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.