Tveir ferðamenn létust og tvö önnur liggja þungt haldin eftir að hafa bjargað tveimur börnum frá drukknun við strendur Guardamar á Spáni þann 7. júní en börnin eru 6 og 7 ára gömul. Þetta gerðist einungis einum degi eftir að 68 ára gamall Ísraeli drukknaði við sömu strönd.
Guardamar er í Alicante héraði á Spáni og tilheyrir sama svæði og Íslendinganýlendan í Orihuela Costa en Nútíminn sagði frá því fyrir stuttu að svæðið værir stórhættulegt um þessar mundir vegna aðstæðna sem myndast við ákveðin vindskilyrði á þessum tíma árs.
Sjónarvottar sögðu frá því að fyrri maðurinn, sem var 52 ára Breti, hafi hlaupið út í sjó er hann sá að börnin voru komin í hættulegar aðstæður og sá seinni, sem var 46 ára Pólverji hafi aðstoðað við björgunina.
Eftir skamma stund kom svo par sem aðstoðaði mennina og náðu að koma börnunum í land en mennirnir komust ekki sjálfir í land og örmögnuðust í ölduganginum eftir að hafa náð að koma börnunum tveimur áleiðis. Þeir fundust látnir skömmu seinna.
Parið, sem eru 22 ára karlmaður og 20 ára gömul kona náðu við illan leik að koma börnunum örugglega á land en gleyptu mikinn sjó og liggja þungt haldin á spítala.
Íslendingar sem staddir eru á þessum slóðum eru beðnir um að fara að öllu með gát og fylgjast vel með merkingum sem settar eru við hverja strönd og segja til um hversu hættulegar aðstæður eru.
Algengt er að ferðamenn hunsi þessar viðvaranir en rauð viðvörun hafði verið sett upp í öll skiptin sem drukknun hefur átt sér stað.
Orihuela Costa sem og Alicante svæðið allt er gríðarlega vinsælt meðal Íslendinga allt árið um kring og sérstaklega á þessum tíma árs.
Átta manns hafa nú drukknað á jafnmörgum á þessu svæði dögum svo full ástæða er til að fara að öllu með gát.