Arnar Þór Jónsson, lögmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, var nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.
Í viðtalinu ræddi hann pólitískar hræringar á Vesturlöndum og stöðu alþjóðamála, sérstaklega með áherslu á samskipti Íslands við Bandaríkin og Evrópusambandið.
Ábyrgðarlausir íslenskir ráðamenn
Arnar telur að stefna Evrópuríkja gagnvart Bandaríkjunum, sem hafa viljað binda enda á stríðið í Úkraínu, sé varasöm og hefur sérstakar áhyggjur af því hvernig íslenskir ráðamenn hafa tekið þátt í þeirri umræðu.
Hann varar við því að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna gæti verið í hættu þegar íslensk stjórnvöld séu orðin óþarflega gagnrýnin á stefnu Bandaríkjanna og æðstu ráðamenn þar.
Að hans mati gæti það leitt til þess að Bandaríkjamenn endurskoði samstarf sitt við Ísland, sérstaklega ef þeir hafi „lítinn húmor“ fyrir áframhaldandi gagnrýni utanríkisráðherra á forseta Bandaríkjanna.
Á hraðbraut inn í ESB?
Hann bendir einnig á að núverandi ríkisstjórn virðist stefna í átt að hraðari inngöngu í Evrópusambandið og telur að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfstæði Íslands.
Hann varar við að slíkt gæti leitt til þess að Ísland þurfi að afsala sér mikilvægum auðlindum, eins og vatni og orku, í skiptum fyrir inngöngu í sambandið, sérstaklega ef ESB stefnir á að hervæða sambandið frekar.
Styrkjamálið
Arnar ræddi einnig um styrkjamálið svokallaða og spáir því að Flokkur fólksins gæti orðið fórnarlamb Morgunblaðsins vegna þessa.
Sérstaklega þar sem enn hafi ekki verið settur formlegur punktur á málið og að hans mati er mögulegt að það leiði til alvarlegra afleiðinga fyrir ríkisstjórnina.
Arnar segir fjármálaráðherra ekki hafa heimild til að líta framhjá því að hans hlutverk sé að innheimta almannafé sem ráðstafað hefur verið í leyfisleysi, bara vegna þess að flokkurinn sé í ríkisstjórn.
Ísland gæti glatað sjálfstæði sínu
Í viðtalinu kom einnig fram að hann telur þróun mála í Úkraínu benda til þess að Evrópusambandið muni reyna að auka hernaðarumsvif sín og jafnvel kalla eftir aukinni þátttöku Íslands í hernaðarlegu samstarfi.
Hann telur að Ísland þurfi að huga vandlega að stöðu sinni í nýjum alþjóðlegum veruleika þar sem stórveldin eru að endurmeta bandalög sín og að Ísland megi ekki við að stofna samstarfi sínu við Bandaríkin í hættu.
Hægt er að sjá brot úr þættinum hér fyrir neðan en viljirðu sjá allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift á Brotkast.is.