Viðskiptavinur Indó bankasetti sig í samband við Nútímann og lýsti yfir óánægju með bankann eftir að hafa fengið viðvörun um mögulega lokun á reikningi sínum.
Bankinn krefur hann um skýringar á því sem hann lýsir sem venjulegum millifærslum þrátt fyrir að allar tekjur hans séu frá viðurkenndum fyrirtækjum.
Viðskiptavinurinn starfar bæði sem verktaki og í launuðu starfi og launin koma frá stórfyrirtækjum á Íslandi og lögmæti þeirra hafið yfir allan vafa.
Samkvæmt viðskiptavininum eru dæmi um millifærslur sem bankinn vill fá skýringar á 15.000 króna millifærsla frá foreldri inn á reikninginn hans og 10.000 króna millifærsla frá honum til vinar.
Hann segir bankann hafa krafist nánari skýringa á slíkum færslum og sent honum aðvörun um að reikningnum gæti verið lokað ef ekki verður komið til móts við beiðnina.
Viðskiptavinur lýsir vonbrigðum
Viðskiptavinurinn segir þetta framferði Indó óásættanlegt og íþyngjandi. Og segir þetta venjulegar færslur sem allir gera af og til, smá aðstoð frá fjölskyldu eða smá greiðsla til vina.
Að þurfa að útskýra þetta allt fyrir bankanum er óskiljanlegt að hans mati.
„Við höfum skyldur samkvæmt lögum til að tryggja gagnsæi í fjármálakerfinu“
Hann bendir einnig á að allar tekjur hans séu lögmætar og komi frá viðurkenndum fyrirtækjum.
„Það er enginn vafi á því hvaðan tekjurnar koma. Þetta eru traust fyrirtæki og reglulegar launagreiðslur,“ bætir hann við.
Indó segjast skyldugir til að sinna slíku eftirliti
Í svari frá Indó banka kemur fram að bankinn þurfi að fylgja ströngum reglum um varnir gegn peningaþvætti.
Þær reglur geri það að verkum að bankinn þurfi stundum að óska eftir nánari upplýsingum um millifærslur sem virðast ekki tengjast tekjum viðskiptavinarins.
„Við höfum skyldur samkvæmt lögum til að tryggja gagnsæi í fjármálakerfinu. Þetta krefst stundum þess að við biðjum viðskiptavini okkar um skýringar á ákveðnum færslum,“ segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri Indó.
Millifærslur sem taldar eru óvenjulegar þurfi að skoða og sé bankanum skylt að krefjast þess að viðskiptavinir geti gert grein fyrir slíkum greiðslum.
Hann ítrekar að þeirra upplýsinga sem er krafist sé langoftast í beinu samræmi við þá upphæð sem um ræðir eða fjölda innlagna.
Haukur nefnir dæmi um að ef viðskiptavinur leggur 20 milljónir inn á reikning og segir það vera innkomu vegna sölu fasteignar þá sé ekki ólíklegt að bankinn þyrfti að biðja um að sjá afsal eða kvittun.
Sé upphæðin hins vegar 10.000 krónur en kerfið merki það sem óvenjulega færslu sé líklegt að sú skýring að foreldri sé bara að lána smá pening tekin góð og gild.
Sé óvenjulegur fjöldi af slíkum færslum sjáanlegur sé mögulegt að bankinn krefjist frekari skýringa en slíkt sé alltaf metið í hverju tilfelli fyrir sig.
Haukur segir mikilvægt að sinna þessu eftirliti sem krafist er af fjármálastofnunum og nefnir tvær stórar sektir sem íslenskir bankar fengu nýlega máli sínu til stuðnings.
Eru ekki að ásaka viðskiptavini um neitt
Haukur tók fram að þrátt fyrir þessar fyrirspurnir gangi bankinn ekki út frá að viðskiptavinurinn sé sekur um neitt.
Aðspurður um hvort þetta sé ekki brot á persónuverndarlögum svaraði Haukur því að þessi ákvæði trompi persónuverndarlögin.
Blaðamaður spurði Hauk hvort það mætti ekki túlka þetta sem svo að í raun væri verið að gera öfugt við það sem ein af undirstöðum réttarríkisins kveður á um, en það er „saklaus uns sekt er sönnuð.“
„Bankinn krefst svara frá viðskiptavini og lokar korti eða reikning ef það er ekki talið fullnægjandi, ætti ekki bankinn að þurfa að sanna eitthvað vafasamt upp á viðskiptavin til að mega fara þessa leið?“
Haukur svaraði að líklega væri hægt að túlka þetta á þann veg en það gerði hann ekki og jafnvel ef svo væri þá ber bankanum að framfylgja þessum lögum eða eiga sjálfir á hættu að lenda í klandri.
Lögin
„Á Íslandi gilda lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem tóku gildi 1. janúar 2019. Markmið þessara laga er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila, sem stunda starfsemi sem kann að verða notuð í slíkum tilgangi, til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra. Þeir skulu einnig tilkynna til lögbærra yfirvalda ef grunur vaknar um ólögmæta starfsemi.“
„Samkvæmt lögunum bera fjármálastofnanir ábyrgð á að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum, meta áhættu tengda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og tilkynna grunsamleg viðskipti til viðeigandi yfirvalda. Þetta felur meðal annars í sér að safna upplýsingum um viðskiptamenn, fylgjast með viðskiptum þeirra og tryggja að starfsmenn séu þjálfaðir í að greina og bregðast við mögulegu peningaþvætti.“
„Eftirlit með framkvæmd þessara laga er í höndum Seðlabanka Íslands, sem hefur heimildir til að beita viðurlögum ef í ljós kemur að ákvæðum laganna eða reglugerða á grundvelli þeirra er ekki fylgt. Viðurlög geta meðal annars falið í sér stjórnvaldssektir, brottvikningu stjórnenda eða afturköllun starfsleyfa.“
„Til viðbótar við lög nr. 140/2018 hafa verið settar reglugerðir til að útfæra nánar skyldur fjármálastofnana, svo sem reglugerð nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þessi reglugerð kveður á um framkvæmd áreiðanleikakannana og áhættumat viðskiptamanna.“
„Þessar reglur og leiðbeiningar eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, meðal annars vegna aðildar að Financial Action Task Force (FATF), sem setur alþjóðlega staðla í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.“