Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur. Þetta segja vísindamenn Veðurstofu Íslands sem hafa legið yfir nýjustu tölum og upplýsingum frá svæðinu síðasta sólarhringinn.
Þá er líklegast að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells en kvikumagnið undir Svartsengi heldur áfram að aukast með hverri mínútunni sem líður. Þá hefur hraði landriss haldist nokkuð jafn en Veðurstofa Íslands segir einnig möguleika á kvikuhlaupi án þess að til eldgoss komi.
Hálf milljón rúmmetra á sólarhring
„Líkanreikningar sýna að í dag hafa um 8,5-9 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi. Hraðinn á landrisinu hefur haldist nokkurn veginn sá sami síðust daga. Að öllu jöfnu hefur dregið úr hraða landriss þegar nálgast hefur eldgos,“ segir í tilkynningunni en samkvæmt líkanreikningum safnast um hálf milljón rúmmetrar af kviku undir Svartsengi á hverjum sólarhring.
„Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hraða nást efri mörk í næstu viku.“
Nýtt hættumat Veðurstofu Íslands sem gefið var út í dag helst óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir fram á þriðjudaginn 5. mars að öllu óbreyttu.