Edda Björk Arnardóttir, sem rændi þremur börnum sínum frá Noregi og flaug ólöglega með hingað til lands í einkaflugvél árið 2022, er enn í felum en handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur henni. Ætlunin er að framselja hana til Noregs þar sem hún á að fara fyrir dóm vegna umrædds barnaráns. Edda Björk hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún gagnrýnir það að það eigi að framselja hana til Noregs þrátt fyrir að ekki sé komin dagsetning á réttarhöld yfir henni.
Þá tekur hún fram að hún vilji ekki sitja í gæsluvarðhaldi í Noregi í óskilgreindan tíma en segist jafnframt ekki hafa ætlað að koma sér undan réttvísinni því hún hafi „alltaf ætlað að mæta fyrir rétt í Noregi.“ Edda Björk heldur því einnig fram í yfirlýsingu sinni að handtakan sé yfirvarp íslenskra stjórnvalda svo faðir barnanna, sem hefur verið dæmd forsjá yfir þeim bæði í Noregi og á Íslandi, geti sótt þá og flutt til Noregs þar sem þeir hafa búið.
„Mín ályktun er einnig að íslensk yfirvöld vilji leysa þetta sem fyrst og helst í skjóli nætur því ég er með svo mikið vesen.“
Edda Björk segir framsalsbeiðnina óljósa þó henni mega vera það ljóst að um er að ræða alvarlegan glæp í Noregi. Það að ræna börnum, þó svo að þau séu þín eigin, þegar þú ert ekki með forsjá yfir þeim, er litið grafalvarlegum augum.
Hafði áhrif á ákvörðun barnanna
Það ber að taka það fram að áður en umrætt barnarán átti sér stað að þá höfðu öll börn hennar, nema ein stúlka, sagt það fyrir dómi og við fagaðila í Noregi að þau vildu vera hjá föður sínum. Blaðamenn í Noregi, sem Nútíminn ræddi við, þóttu það afskaplega undarlegt hversu mikið pláss íslenskir fjölmiðlar gæfu Eddu Björk til þess eins að koma höggi á barnsföður sinn – sem hingað til hefur ekki viljað koma fram undir nafni til þess að vernda börn sín.
Þá tóku þeir það fram að þeir hafi fylgst með þróun málsins á Íslandi og um væri að ræða skólabókardæmi um foreldri sem hefði vísvitandi áhrif á börn sín til þess að fá þau til að snúast gegn hinu foreldrinu.
Yfirlýsing Eddu Bjarkar í heild sinni:
Ég hef aldrei ætlað mér að komast undan réttvísinni og hef alltaf ætlað að mæta fyrir rétt í Noregi.
Síðastliðið sumar var gefin út handtökubeiðni á mig í Noregi. Forsendur hennar eru sagðar þær að ég hafi ekki brugðist við fyrirkalli til að mæta í réttarhöld yfir mér þann 9. og 10. ágúst síðastliðinn. Þann 28. júlí eða 12 dögum FYRIR áætlaða aðalmeðferð var óskað eftir því að ég yrði handtekin og framseld.
Ekkert í gögnum frá Noregi sýnir að ég hafi ekki ætlað að mæta fyrir dóm, þvert á móti var lögmaður minn í Noregi búinn að staðfesta þessar dagsetningar við réttinn. Ég fékk því ekki einu sinni tækifæri til að framkvæma þann “glæp” sem norsk yfirvöld vilja nú láta handtaka mig fyrir og framselja gegn mínum vilja til Noregs til að sitja þar í gæsluvarðhaldi. Norsk yfirvöld hafa enga ástæðu til að ætla að ég muni ekki mæta fyrir réttinn en það hef ég alltaf ætlað mér. Einnig er því haldið fram í beiðninni að ég muni reyna að komast undan afplánun refsidóms sem er alrangt. Ég er að afplána norskan refsidóm með samfélagsþjónustu nú þegar.
Aftur á móti er ég ekki tilbúin að láta handtaka mig og færa til Noregs án þess að dagsetning sé komin á ný réttarhöld. Síðast í dag sendi ég tölvupóst á lögmann minn í Noregi sem staðfesti enn og aftur að ekki hefði verið haft samband við hann og því ekki komin dagsetning á fyrirhuguð réttarhöld.
Yfirvöldum á Íslandi er í lófa lagt að samþykkja framsal mitt á þeim forsendum að dagsetning réttarhalda liggi fyrir en framselji mig ekki til að sitja í gæsluvarðhaldi í óskilgreindan tíma.
Einnig má með góðu móti draga þá ályktun af samskiptum við norsk yfirvöld að ástæða þessarar beiðnar er alls ekki sú sem greint er frá hér fyrir ofan heldur virðist hún einungis vera yfirvarp. Beiðnin er þáttur í stærri áætlunum um að flytja syni mína gegn vilja sínum til Noregs. Tilvitnun: „The father will come to Iceland, in order to take care of the sons and bring them back to Norway … We hope you will contact us when you know which date you are planning to apprehend so we can inform the father and start planning the transport to Norway.“
Mín ályktun er einnig að íslensk yfirvöld vilji leysa þetta sem fyrst og helst í skjóli nætur því ég er með svo mikið vesen. Landsréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms rétt fyrir klukkan 17 á föstudegi. Við áttum von á úrskurði á miðvikudegi eða í síðasta lagi á fimmtudegi. Klukkan 20 á föstudagskvöld var lögreglan mætt með leitarheimild á heimili mitt. Fyrir tilviljun var ég ekki heima. Ástæða þess að ég hef ekki gefið mig fram er sú að ég vil að íslensk yfirvöld gæti meðalhófs í afhendingu minni. Ég vil að ég sem íslenskur ríkisborgari njóti vafans þegar kemur að óljósum framsalsbeiðnum sem engin gögn styðja og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. En mér líður oft eins og ég sé að berjast við vindmyllur. Og íslensk yfirvöld ætla enn einu sinni að beygja sig fyrir konunginum.
Heill Noregi.