Heimir Hallgrímsson tilkynnti í morgun að hann ætlaði sér ekki að halda áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Heimir hefur starfað sem þjálfari liðsins undanfarin sjö ár og náð sögulegum árangri.
Hann hefur líkt og allt liðið unnið hug og hjörtu Íslendinga og hér að neðan förum við yfir það merkilegasta sem gerðist á þessum sjö árum. Búið ykkur undir gæsahúð og tár.
Endurkoma gegn Sviss
Heimir byrjaði sem aðstoðarþjálfari Lars Lagerback. Íslendingar komust grátlega nálægt því að komast á HM árið 2014 í Brasilíu undir þeirra stjórn. Liðið datt út gegn Króötum í umspili um sæti en fyrir það hafði Ísland tryggt sér annað sæti í E riðli undankeppninnar fyrir ofan Noreg, Slóveníu, Albaníu og Kýpur. Eftirminnilegasti leikurinn var ótrúlegt jafntefli gegn Sviss á útivelli þar sem Jóhann Berg Guðmundsson skoraði þrjú mörk.
Stórsigur gegn Tyrklandi
Margir Íslendingar töldu að tapið gegn Króötum þýddi að eini séns landsliðsins að komast á stórmót væri farinn. Liðið dróst í erfiðan riðil með Tyrkjum, Hollendingum og Tékkum í undankeppni fyrir Evrópumótið í Frakklandi árið 2016. Strákarnir sýndu strax í fyrsta leik að það ætti enginn að efast um getu þeirra á fótboltavellinum með 3-0 sigri á Tyrkjum á Laugardalsvelli. Árið 2013 skrifaði Heimir undir fjögurra ára samning við KSÍ og varð aðalþjálfari liðsins ásamt Lars Lagerback.
https://www.youtube.com/watch?v=o3Qi1lX6HAM
Sigur í Hollandi
Íslenska liðið spilaði frábærlega í undankeppninni og 1-0 sigur gegn Hollandi í Amsterdam þýddi að liðið var komið í frábæra stöðu til þess að komast á EM í Frakklandi. Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslendingum 1-0 sigur og þrátt fyrir tvö jafntefli og eitt tap í síðustu þremur leikjum þýddi sigurinn gegn Hollandi að liðið væri á leið á stórmót í fyrsta skipti í sögu karlalandsliðsins.
Jafntefli gegn Cristiano Ronaldo og Portúgal
Fyrsti leikur Íslands á EM í Frakklandi var gegn Portúgal. Ísland náði frábæru jafntefli gegn liðinu sem vann á endanum mótið og tókst að halda besta leikmanni heims, Cristiano Ronaldo, í skefjum. Í viðtali eftir leikinn sagði Cristiano Ronaldo að Íslendingar væru með hugsunarhátt smárrar þjóðar en við sýndum að sá hugsunarháttur er alls ekki slæmur.
Ísland sigrar Austurríki og kemst áfram í 16 liða úrslit
2-1 sigur gegn sterku liði Austurríkis tryggði Íslendingum áfram í 16 liða úrslit Evrópumótsins.
Landsliðið brýtur ensk hjörtu og skráir sig enn og aftur í sögubækurnar
Ef að það var einhver sem hafði ekki heyrt um íslenska liðið þá breyttst það í þessum leik. Englendingar voru sigurvissir og komust yfir snemma í leiknum en íslenska liðið sýndi ótrúlegan karakter og sneri leiknum við og fagnaði að lokum sögulegum 2-1 sigri.
Endurkoma gegn Finnlandi setti tóninn í undankeppni HM
Lars Lagerback hætti sem þjálfari eftir frábæran árangur á EM og Heimir tók einn við liðinu. Margir efuðust um að Heimir gæti séð um liðið einn. Eftir 1-1 jafntefli gegn Úkraínu í fyrsta leik í undankeppni fyrir HM í Rússlandi stefndi allt í 2-1 sigur Finna á Laugardalsvelli. Mörk frá Alfreði Finnbogasyni og Ragnari Sigurðssyni í uppbótartíma gáfu Íslendingum hinsvegar gífurlega mikilvægan sigur og settu tóninn fyrir undankeppnina.
Ísland slátrar Tyrkjum og Pyry Soiri verður þjóðhetja
Ísland þurfti á sigri að halda gegn Tyrkjum í Tyrklandi til þess að komast á HM. Strákarnir spiluðu einn besta landsleik sem liðið hefur átt og unnu öruggan 3-0 sigur á erfiðum útivelli. Á sama tíma vann Finnland Króata 1-0 með marki frá Pyry Soiri sem verð þjóðhetja á Íslandi. Úrslitin þýddu að sigur á Kósovó í síðasta leik myndi tryggja Ísland beint á HM á kostnað Króata.
https://www.youtube.com/watch?v=6WlHhF1tjAU
Sigur á Kósovó og strákarnir á leið á HM
Að sjálfsögðu kláruðu strákarnir verkefnið og unnu öruggan 2-0 sigur. Heimir hafði stýrt íslenska karlalandsliðinu á HM í fyrsta skipti í sögunni.
Jafntefli gegn Argentínu í fyrsta leik á HM
Fyrsti leikur Íslands í Rússlandi var á móti stórliði Argentínu sem var með Lionel Messi innanborðs. Aftur tókst strákunum að þagga niður í besta leikmanni heims líkt og gegn Portúgal fyrir tveimur árum. Sergio Aguero kom Argentínumönnum yfir en við vissum það að strákarnir geta alltaf komið til baka. Alfreð Finnbogason jafnaði metinn og Hannes Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi í ótrúlegum leik.
Takk fyrir okkur Heimir!