Plötubúðin 12 Tónar í Reykjavík er besta plötubúð í heimi samkvæmt nýjum lista sem birtist á vef breska popptímaritsins NME. Þetta er mat blaðamannsins Marcus Barnes sem gaf á dögunum út bók um plötubúðir.
Í bók Barnes fjallar hann um 80 plötubúðir víðs vegar í heiminum. Í spjalli við NME velur hann tíu plötubúðir sem eru í uppáhaldi og 12 Tónar er þar efst á lista.
„Ísland er þekkt fyrir að framleiða stórkostlega hæfileikaríka og einstaka listamenn. Þessi búð er í eigu nokkurra þeirra og þeir eru með fyrsta flokks úrval. Auk þess er búðin hönnuð svo að viðskiptavinir geti slappað af og átt samskipti við hver annan. Uppskrift að velgengni,“ segir Barnes í lýsingu sinni á plötubúðinni
Lárus Jóhannesson er annar eiganda 12 Tóna en hann segir í samtali við mbl.is að þetta séu ánægjulegar fréttir.
„Að starf manns skipti fólk máli er mjög hvetjandi og okkur þykir vænt um að fá eina rósina enn í hnappagatið. Við höfum verið á mörgum listum í gegnum tíðina og það er alltaf ánægjulegt, sérstaklega ef við trónum á toppnum,“ segir Lárus við Mbl.is.