Arthur Cave, sonur tónlistarmannsins Nick Cave, lést í vikunni eftir að hann féll fram af bjargi í Sussex á Englandi. Þetta kemur fram á vef The Independent.
Arthur var sonur Nick Cave og eiginkonu hans, Susie Bick. Vegfarendur í Sussex fundu drenginn síðdegis í gær. Hann var á lífi þegar hann fannst en lést af sárum sínum á spítala í Brighton skömmu síðar.
Arthur var 15 ára gamall. Ekki er talið að lát hans hafi borið að með saknæmum hætti. Foreldrar hans sögðu í yfirlýsingu að Arthur hafi verið fallegur, hamingjusamur og ástríkur drengur.