Auglýsing

Jón Gnarr efast um að koma Netflix til landsins sé fagnaðarefni fyrir neytendur

Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365, segir það synd ef 365 og fleiri fyrirtæki hætti að sjá sér fært að framleiða íslenskt sjónvarpsefni. Hann efast um að koma Netflix til landsins sé fagnaðarefni fyrir neytendur.

Netflix opnaði fyrir þjónustu sína hér á landi í gær. Jón Gnarr vísar um umfjöllun Kjarnans á Facebook-síðu sinni þar sem kemur fram að það sé fagnaðarefni þegar samkeppni eykst neytendum til hagsbóta. Þjónusta Netflix er ódýr, kostar frá 1.000 til 1.700 krónur á mánuði.

„Ég veit ekki alveg hversu mikið „fagnaðarefni“ þetta er fyrir neytendur,“

Ég er að vinna hjá einum af þessum fyrirtækjum sem minnst er á í greininni. Þar á bæ er verið að búa til aragrúa af íslensku sjónvarpsefni. Og eins og ég hef margoft sagt þá er ég að því af því að mig langar til að leggja mitt af mörkum til að efla og styrkja innlenda framleiðslu og dagskrá.

Jón bendir á að 365 hafi sett á fót sérstaka handritsþróunardeild sem á að einbeita sér að þessu.

„Ég hef nýlokið við að skrifa tíu þátta sjónvarpsseríu sem heitir Borgarstjórinn. Við hjá 365 erum líka að vinna að mjög metnaðarfullri leikinni þáttaröð í samstarfi við Reykjavík Stúdíós,“ segir hann.

„Auk þessa er ég að skoða möguleika á að gera sérstakan jólaþátt af Næturvaktinni og áramótaþátt líka. Það er nokkuð flókið að gera íslenska sjónvarpsþætti. Sérstaklega með tilliti til fjármögnunar. Kvikmyndasjóður Íslands leggur enga sérstaklega áherslu á sjónvarp. Þeir styrkja aðallega kvikmyndir og sjónvarp mætir eiginlega afgangi.“

Jón segist telja að framlag sitt til innlendrar sjónvarpsþáttagerðar hafi skipt miklu máli.

„Ekki bara sem afþreying heldur fyrst og fremst sem framlag til íslenskrar tungu og menningar og sem heimild um okkar samtíma. Mig langar að finna leiðir til að halda því áfram, að búa til sjónvarp fyrir Íslendinga á íslensku,“ segir hann.

„Og mér finnst það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess hvernig sjónvarp er að breytast í heiminum. Ef fyrirtæki einsog 365 og fleiri hætta að sjá sér fært að standa í því að framleiða íslenskts sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert fagnaðarefni. Það er bara synd.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing