Leikstjórinn Baltasar Kormákur fyrirhugar að „slatti af Íslendingum“ starfi við gerð nýjustu kvikmyndar sinnar í Hollywood. Myndin heitir Adrift og er byggð á sögu Tami Oldham og Richard Sharp sem ætluðu að sigla skútu frá Tahíti til San Diego árið 1983 og lentu í miklum hremmingum.
Sjá einnig: Svona komst Baltasar Kormákur í þetta klikkaða form: „Balti var mjög einbeittur í verkefninu“
Í samtali við Nútímann segir Baltasar að stefnt sé á að hefja tökur í vor og að myndin verði að miklu leyti tekin upp við og á Tahíti. Ef allt gengur upp segir Baltasar að myndin verði frumsýnd í lok árs. „Það á samt allt eftir að koma í ljós hversu hratt og vel þetta gengur,“ segir hann.
RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars, framleiðir myndina ásamt bandaríska framleiðslufyrirtækinu STXfilms. Þar sem RVK Studios tekur þátt í framleiðslunni segir Baltasar að það sé að miklu leyti í hans höndum að ákveða hver tekur þátt í gerð myndarinnar. „Það er klárlega planið að hafa slatta af Íslendingum starfandi í kringum gerð myndarinnar,“ segir hann.
Á vef Deadline kemur fram að framleiðendur hafi sagt að myndin verði svipuð Gravity, eftir leikstjórann Alfonso Cuarón, nema á sjó en Baltasar gefur lítið fyrir það. „Það er nú bara eitthvað bull,“ segir hann.
Ég gæti trúað því að fólk tengi þær saman þar sem aðalhlutverkið er í höndum konu í báðum myndunum og þær berjast fyrir lífi sínu.
Leikkonan Shailene Woodley fer með aðalhlutverkið í Adrift og Baltasar segir að hún sé ofboðslega góð leikkona. „Ég hugsa hins vegar að hún sé frægari hjá unglingum en fullorðna fólkinu.“ segir hann léttur.
Baráttan við náttúruöflin er áberandi í myndunum Everest og Djúpinu eftir Baltasar og ljóst er að hann verður við sama heygarðshornið í Adrift. „Ég hef bæði verið í fjallgöngu og siglingum og tengi því við þessar myndir. Ég hef gaman af því þegar einstaklingurinn þarf að mæta náttúrunni og þess vegna heilla svona myndir mig,“ segir hann.
„Það vita það ekki margir en ég var mikið í siglingum þegar ég var yngri. Mér var meira að segja boðið að keppa á Ólympíuleikunum sem ég þurfti að hafna þar sem ég var að byrja í leiklistarskólanum. Annars hef ég bara gaman að því að taka að mér flókin og erfið verkefni, svona myndir eru oft erfiðar.“