Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur kært einn mann til lögreglu fyrir að dreifa ólöglega höfundarréttarvörðu efni sem framleitt var fyrir fyrirtækið. Ekki er útilokað að fleiri verði kærðir.
Fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kom fram að sérhæfð fyrirtæki muni héðan í frá fylgjast grannt með IP tölum þeirra sem dreifa íslensku sjónvarpsefni um ólöglegar síður og dreifiveitur.
„Með því að nýta sér þjónustu eins og Torrent eru þeir sem sækja sjónvarpsefni sjálfvirkt að deila því,“ sagði einnig í tilkynningunni.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir í samtali við Nútímann að allt bendi til þess að maðurinn sem kærður hefur verið hafi ítrekað gert íslenskt efni aðgengilegt á þar til gerðum síðum.
Hann segir að ekki hafi verið fylgst með manninum lengi. Umrætt eftirlit er samstarf 365 og Frísk, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði og segist Sævar ekki þekkja nákvæmlega tæknilegu hlið eftirlitsins.
Síðar mun koma í ljós hvort og þá hversu háar skaðabætur fyrirtækið mun fara fram á vegna málsins.
Í tilkynningunni sem 365 sendi frá sér í dag nú hafa sex þættir af Borgarstjóranum verið sýndir en ólöglegt niðurhal þáttanna telur um 21.800 skipti. Þá hafa fimm þættir verið sýndir af Leitinni af upprunanum en niðurhal þáttanna telur þegar tæp 14.400 skipti.