Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en þar segir að þetta sé óvenjulega mikið.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tugir fíkniefnamála komu upp í kringum Secret Solstice tónlistarhátíðina.
32 þeirra sem voru stöðvaðir um helgina fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur voru stöðvaðir í Reykjavík, í Hafnarfirði voru fjórir stöðvaðir, þrír í Kópavogi og tveir í Garðabæ. Þrír voru teknir á föstudagskvöld, nítján á laugardag, fjórtán á sunnudag og fimm aðfaranótt mánudags.
Mikill meirihluti ökumanna var karlkyns en 33 karlar á aldrinum 17-45 ára voru stöðvaðir. Átta konur á aldrinum 19-64 ára voru stöðvaðar. Sex þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, fimm höfðu aldrei öðlast ökuréttindi og einn var í akstursbanni.