Hátt í helmingur landsmanna er andvígur því að Félag múslima fái að reisa sér mosku á Íslandi, 42,4 prósent segjast því andvíg en 29,7 prósent segjast því fylgjandi í nýrri könnun MMR. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Í frétt RÚV kemur fram að afstaðan til þess hvort Félag múslima fái að reisa mosku hérlendis er svipuð og þegar MMR kannaði í fyrra afstöðu landsmanna til þess hvaða trúfélög ættu að fá að reisa trúarbyggingar á Íslandi.
Könnuð var afstaða fólks til nýbygginga á vegum Þjóðkirkjunnar, Ásatrúarfélagsins, Búddistafélagsins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Félags múslima.
Mynd af vef MMR:
Spurt var: Hversu fylgandi eða andvíg(ur) ertu því að eftirfarandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi? Alls tóku 92,4 prósent afstöðu til að minnsta kosti eins trúfélags. Hlutfallið sem sýnir afstöðu til hvers og eins trúfélags miðast við fjölda þeirra sem lýstu afstöðu til í það minnsta eins trúfélags, en ekki aðeins þeirra sem tóku afstöðu til hvers fyrir sig.