Hjónin Ása Lind Elíasdóttir og Helgi Guðjónsson ætla að leyfa þeim sem vilja að fylgjast með því sem fylgir smásjárfrjóvgun, sem er framundan hjá þeim, á Snapchat. Þau hafa stundað kynlíf án getnaðarvarna í sex ár án þess að Ása Lind verði ólétt.
Sjáðu nokkur Snapchat-myndbönd frá Ásu Lind hér fyrir ofan.
Ása Lind hefur tekið hormónalyf síðustu ár og eiga þau einnig tvær tæknisæðingar að baki. Hún glímir við fjölblöðrueggjastokkaheilkenni, eða PCOS og fær sjaldan egglos. Þetta kom í ljós þegar hún var nítján ára gömul og vissi hún þá að það gæti orðið erfitt fyrir hana að eignast börn.
„Ég sagði Helga strax á fyrsta deiti að ef við ætluðum að eignast börn myndum við þurfa hjálp. Hann sagði, já já, ekkert mál,“ segir Ása Lind í samtali við Nútímann. Það var henni mjög mikilvægt að vera hreinskilin um þetta við Helga, sem og vefjagigtina sem hún er með. Eftir að hafa heyrt allt þetta sagði Helgi að hann gæti hugsanlega fengið skalla fyrir þrítugt. Ása Lind gat ekki annað en hlegið, það var svo sannarlega ekki vandamál í hennar huga.
Þegar Ása Lind og Helgi höfðu verið saman í níu mánuði ákváðu þau að hætta að nota getnaðarvarnir þar sem þau vissu að það gæti tekið Ásu Lind nokkurn tíma að verða ólétt. Eftir að hafa verið án varna í eitt ár fóru þau í fyrsta tímann hjá Art Medica. Talað er um að par glími við ófrjósemi hafi það stundað óvarið kynlíf í eitt ár án þess að konan verði ólétt.
Í fyrsta tímanum hjá Art Medica ræddu þau við lækni og Ása Lind fór í skoðun. Helgi var sendur í sæðisprufu og þegar hún kom vel út var ákveðið að Ása Lind færi á hormónalyf. „Ég var frekar ung og við vorum ekki endilega að drífa okkur í mikil inngrip. Árið 2012 fór ég í kviðarholsspeglun þar sem blöðrur voru sprengdar. Þarna vorum við farin að reyna meira og ákváðum að fara í tæknisæðingu,“ segir hún.
Hún bar ekki árangur og við tók erfiður tími. „Það fylgir alltaf svo mikil sorg; hverju neikvæðu prófi, hverjum blæðingum,“ segir Ása Lind.
Maður á ekki alltaf að þurfa að fela hvað manni líður illa.
Þegar par fer í tæknisæðingu sem gengur ekki upp er oft reynt að minnsta kosti einu sinni til viðbótar. Ása Lind vildi aftur á móti einbeita sér að öðru um stund, vinna úr sorginni og hóf nám í förðunarfræði haustið 2012. Hún tók áfram hormónalyf sem á að kalla fram egglos.
Þegar þau komu í seinni tæknisæðinguna kom í ljós að sæðisfrumarnar voru orðnar fáar og virknin minni
Hjónin hafa ekki alltaf verið jafn opin um ófrjósemina líkt og þau eru nú. „Ég fann hvað mér fannst þetta erfitt, að það vissi enginn af þessu. Við vorum til dæmis ekki búin að tala um þetta við fjölskyldu Helga. Við hefðum örugglega svarað en þau spurðu ekki. Það er erfitt að byrja að tala um þetta,“ segir hún.
„Ég fann andlegu hliðina gjörsamlega hrapa. Það var eitthvað innra með mér, stressköggull, mér fannst svo óþægilegt að geta ekki tjáð mig um þetta,“ bætir hún við.
Í vor fóru hjónin í aðra tæknisæðingu. Þegar þau fóru í þá fyrri létu þau engan vita hvenær hún færi fram en nú ákvað Ása Lind að segja móður sinni og nokkrum vinkonum frá. Hún fann að henni leið strax betur en fannst jafnframt óþægilegt að geta ekki sagt fleirum.
Ása Lind hefur verið með opið Snapchat í nokkurn tíma og fannst henni óþægilegt að hverfa þaðan þegar hún var sorgmædd eða þunglynd vegna árangurslausra tilrauna þeirra við að verða ólétt. „Vá, hvað það væri gott ef allir vissu af hverju okkur liði illa,“ hugsaði hún.
Loks kom að tæknisæðingunni en fyrir hana var Ása Lind búin að sprauta sig með hormónalyfjum í tvær vikur. Þegar þau komu til Art Medica kom í ljós að það var eitthvað að sæði Helga, nú voru sæðisfrumurnar orðnar fáar og virknin minni en áður. Læknirinn gaf hjónunum kost á að sleppa tæknisæðingunni og greiða þar með ekkert fyrir hana þar sem líkurnar voru þeim ekki í hag.
Þessu fylgdi mikil sorg. Við ákváðum að setja upp sæðið, ég gat ekki lifað með því að hafa ekki reynt,“ segir Ása Lind. Tæknisæðingin bar ekki árangur og ákváðu þau þá að fara í smásjárfrjóvgun en þar er góð sæðisfruma sett inn í eggið.
Í haust birti Ása Lind einlægan pistil á heimasíðu sinni þar sem hún greindi frá baráttu þeirra hjóna við ófrjósemi og eftir það hefur hún verið dugleg að tjá sig á Snapchat.
Fagnaði góðum kveðjum en ráð um kynlífsstellingar fóru ekki vel í hana
Í þessari viku byrjaði Ása Lind að taka lyf vegna smásjárfrjóvgunarinnar og mun hún nota töflur, nefúða, stíla og sprautur. Hormónarnir gera það að verkum að hún verður skapvond og líður illa. Eftir um það bil mánuð fer Ása Lind í eggheimtu. Nokkrum dögum síðar verður frjóvgað egg sett upp og þá verður biðin eftir niðurstöðum rúmlega tvær vikur.
Ása Lind segir að síðustu vikur og mánuðir hafi verið erfiðir en hún hafi þó ekki tekið eftir því, eða tengt það við biðina eftir smásjárfrjóvguninni. „Ég var allt í einu byrjuð að finna fyrir ógleði og svima og var stöðugt grátandi. Ég vissi ekki hvað þetta var fyrr en ég áttaði mig á því að þetta væri stress. Mér fannst ég samt finna fyrir létti af því að ég var að tala um þetta á Snapchat,“ segir hún.
„Þetta er meira en að sprauta sig með lyfjum og skila sæði, fólk heldur að þetta sé ekki svo erfitt. En þetta getur tekið verulega á andlegu hliðina,“ segir Ása Lind.
Hún hefur fengið mjög góð viðbrögð eftir að hún fór að ræða ófrjósemina á opinskáan hátt á Snapchat. „Ég held að ég hafi fengið um hundrað skilaboð fyrsta daginn,“ segir Ása Lind. Hún er mjög ánægð með stuðninginn og kveðjurnar sem hún hefur fengið en sum skilaboðin hafa aftur á móti hitt í mark.
„Ég hef fengið ráð frá nokkrum. Ég er búin að vera að þessu í sex ár, hef prófað ýmislegt og vil ekki fá þessi ráð. Ekki segja mér að slaka á, ekki segja mér hvaða kynlífsstellingar gætu hentað, ekki segja mér að vera með fæturnar upp í loftið,“ segir Ása Lind.
Ungt fólk kannast ef til vill að fá af og til spurningar um hvort ekki standi til að fjölga mannkyninu á næstunni og kannast hjónin vel við það. „Þetta er særandi, mér finnst leiðinlegt að fólk ætlist til þess að maður vilji og þurfi að eignast börn. Við Helgi erum mjög hamingjusöm og höfum talað um að það yrði allt í lagi ef við yrðum tvö,“ segir hún og bætir við að það væri þó frábært ef henni tækist að verða ólétt að lokum, þau myndu fagna barninu innilega.
„Mér finnst svo leiðinlegt að fólk ætlist til þess að þetta sé hluti af lífinu. Þetta getur verið mjög særandi og dónalegt,“ segir Ása Lind. Sjálf hefur hún oft fengið spurningar sem þessar og reynt að slá því upp í grín. „Ég kom alltaf með þessa hlið en fór svo út í bíl og grét.“
Notendanafn Ásu Lindar á Snapchat er asalindmua
Einnig er hægt að fylgjast með henni á Facebook, Instagram og YouTube.