Sjónvarpsþáttaseríunni vinsælu Game of Thrones lauk í vikunni þegar lokaþáttur 8. seríu var sýndur. Serían hefur verið gífurlega vinsæl undanfarinn áratug en margir aðdáendur eru óánægðir með áttundu og síðustu seríuna. Sophie Turner, sem fer með hlutverk Sönsu Stark í þáttunum og Kit Harrington, sem lék Jon Snow, gefa lítið fyrir gagnrýnina.
Sjá einnig: Game of Thrones stjarna í góðum gír á Íslandi
Þrátt fyrir að síðasti þátturinn sem var frumsýndur á sunnudaginn hafi slegið áhorfsmet HBO eru ekki allir sáttir með endalokin. Áskorun hefur gengið um á netinu þar sem skorað er á sjónvarpsstöðina að endurgera áttundu og síðustu seríuna.
Sophie Turner segir í viðtali við New York Times að það hafi þó ekki komið henni á óvart að aðdáendur séu óánægðir með endalok þáttanna. Hún segir að það sé eðlilegt að allir séu ekki sáttir því að fólk hafi mismunandi óskir um hvernig þættirnir ættu að enda.
Hún segir það þó óvirðingu við alla þá sem lögðu hart að sér við gerð þáttanna að krefjast endurgerðar. Gífurleg vinna hafi farið í þættina síðasta áratug og ellefu mánuðir farið í gerð síðustu seríunnar.
Kit Harrington segist ekki hafa miklar áhyggjur af gagnrýnisröddunum í viðtali hjá Esquire. Hann segir að gagnrýnendur sem eyða tíma í að skrifa um þáttaröðina á svo slæman hátt megi „fokka sér“.
„Ef þetta veldur fólki vonbrigðum þá er mér sama því allir gerðu sitt besta. Þannig líður mér. Þegar öllu er á botninn hvolft eru ekki til meiri aðdáendur en við og við gerum þetta fyrir okkur sjálf. Það er það eina sem við getum gert og ég er glaður að við náðum að ljúka þessu.“