Þeir sem neyta fíkniefna eru oft mjög útsjónarsamir og þeir deyja seint ráðalausir eins og kristallast kannski í fréttum frá Bretlandi en breskir miðlar greina frá því í dag að aðdáendur hljómsveitarinnar Oasis eru nú þegar byrjaðir að grafa holur og fela fíkniefni í Heaton Park í Manchester þar sem tónleikar sveitarinnar fara fram á næsta ári.
Eiturlyfin verða falin á svæðinu og í hinum ýmsu hlutum á borð við mjúkdýr og „glowsticks“ – sumir ganga jafnvel svo langt að setja á sig gifs til að fela dópið.
Starfsmaður endurhæfingarstofnunar fyrir áfengis- og vímuefnafíkn, Providence Project, sagði í samtali The Sun: „Við höfum rætt við skjólstæðinga okkar sem glíma við fíknivanda og þeir hafa sagt okkur að þeir hafi þegar falið eiturlyf í garðinum. Við myndum vara skipuleggjendur við að vera á verði.“
Heaton Park í Manchester er vinsælt svæði fyrir tónleikahald í borginni.
Hundar og málmleitartæki
Samkvæmt fréttum breskra miðla verður gríðarleg öryggisgæsla á tónleikunum þar sem notast verður við bæði hunda og málmleitartæki. Þá fara starfsmenn öryggisgæslunnar í gegnum allar töskur og poka sem aðdáendur sveitarinnar mæta með sér.
Sérfræðingar frá Providence Project sögðu að eiturlyfjaneytendur gortuðu af því að þeir hygðust smygla eiturlyfjum inn á tónleikana og yrðu þau falin í öllu frá „glowsticks“ til mjúkdýra og varnings tengdum Oasis. Sumir ætla jafnvel að vera með fölsk gifs sem verða troðfull af dópi.
Forstöðumaður meðferðarstöðvarinnar, Paul Spanjar, sagði: „Hvort sem það eru mengaðar e-töflur, hjartaáfall af völdum kókaínneyslu eða geðrof sem hægt er að tengja við kannabisneyslu; þá er raunveruleikinn sá að þó eiturlyfjaneysla virðist tiltölulega örugg og félagslega viðurkennd, þá er hún engu að síður eins og að kasta teningum með lífið þitt.“
Krefjast endurgreiðslu
Oasis hafa einnig skipulagt tónleika í London, Cardiff, Edinborg, Dublin, Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Þessa vikuna útilokaði hljómsveitin að nota dýnamískt verðlagningarkerfi í Norður-Ameríku eftir reiði frá aðdáendum, þar sem miðaverð í Bretlandi rauk upp vegna gríðarlegrar eftirspurnar.
„Bretland er að fá verstu meðferðina,“ segja reiðir Oasis-aðdáendur sem krefjast endurgreiðslu eftir að Bandaríkjatúrinn fór í sölu.