Auglýsing

Aðstandendur Secret Solstice þakka fyrir sig: „Laugardagurinn var sérstaklega skemmtilegur“

Stemningin á tónlistarhátíðinni Secret Solstice, sem fór fram í Laugardal um helgina og lýkur í kvöld, var ótrúlega jákvæð og góð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni, þar sem skipuleggjendur þakka fyrir sig.

Samkvæmt tilkynningunni komu rúmlega 500 manns að hátíðinni með einum eða öðrum hætti en gestirnir voru um 15 þúsund. „Skipuleggjendur þakka öllum hátíðargestum, samstarfsaðilum, lögreglu, gæslu og starfsfólki Frístundamiðstöðva Reykjavíkur fyrir frábæra hátíð,“ segir í tilkynningunni.

„Laugardagurinn var sérstaklega skemmtilegur og það var mikið ánægjuefni að sjá hve margt fjölskyldufólk lét sjá sig. Barnasvæðið á Solstice hefur aldrei verið metnaðarfyllra en þar sá hópurinn Kátt á Klambra um frábæra dagskrá sem börn á hátíðinni fengu að njóta til hins ítrasta.“

Þungarokkhljómsveitin Slayer tróð upp í gær og í tilkynningunni frá hátíðinni kemur fram að það útskýri ef til vill sérstaklega góða strauma sem mynduðust í dalnum. „Enda þungarokksaðdáendur annálaðir sem hið allra mesta friðelskandi fólk. Íslenska sveitin HAM og goðsagnirnar í Slayer fengu þá unga sem aldna til að slamma vel og hressilega og bros sáust á víð og dreif,“ segir þar.

Loks segir í tilkynningunni að hátíðarsvæðið sé í betra ásigkomulagi en við var að búast miðað við veðurskilyrði en rigning setti svip sinn á hátíðina í ár. „Vel hefur tekist að ganga frá eftir hvert kvöld og skipar þar snyrtimennska hátíðargesta stóran sess,“ segir þar.

„Þetta mun einnig auðvelda fyrir við tiltekt á svæðinu þegar hátíðinni lýkur, bæði á svæðinu sjálfu og kringum það. Umhverfisvitund hátíðargesta fer greinilega vaxandi og var vel tekið í sérstakar ráðstafanir skipuleggjenda á borð við að flokka rusl sem og að takmarka plastnotkun eftir fremsta megni.

Einnig má gleðjast yfir því hve margir hátíðargestir ákváðu að koma í Laugardalinn með virkum ferðamátum, gangandi eða hjólandi, eða með Strætó. Umferðin hefur aldrei gengið jafn vel og í ár.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing