Auglýsing

Ætlar með mál gegn Birni Steinbekk fyrir dómstóla, hefur ekki fengið 5,2 milljónir

Kristján Atli Baldursson, eigandi Netmidi.is, hefur ekki fengið endurgreiddar þær 5,2 milljónir sem hann segir Björn Steinbekk skulda honum eftir að viðskipti þeirra í sumar vegna EM í fótbolta og ætlar með málið fyrir dómstóla. Þetta kemur fram á mbl.is.

Kristján keypti 100 miða af Birni á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslit en áður hafði Kristján leigt 180 sæta flugvél frá Keflavík á leikinn.

Þegar þangað var komið bólaði ekkert á miðunum hjá Birni og sátu margir eftir með sárt ennið.

Sjá einnig: Björn Steinbekk byrjaður að endurgreiða miða

Miðarnir sem Kristján keypti af Birni voru fjármagnaðir með peningum úr leigufluginu ásamt láni og voru millifærðir inn á Sónar Reykjavík ehf. Björn er fyrrverandi framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar.

Kristján segir í samtali við mbl.is að Birni og Sónar Reykjavík ehf. hafi verið gefinn tveggja mánaða frestur til að greiða inn á kröfuna en það var ekki gert.

Þá segist Kristján hafa endurgreitt öllum þeim sem keyptu miða af honum. Flestir fengu þá endurgreidda á mánudeginum eftir leikinn en aðrir tveimur til þremur vikum síðar. Hann segist skulda 4,2 milljónir eftir þetta.

Miðaleysið var ekki það eina sem plagaði þá sem fóru út á vegum Kristjáns því tólf manns misstu af fluginu heim þar sem brottförinni var flýtt um margar klukkustundir.

RÚV greindi frá því 13. júlí að Björn væri byrjaður að endurgreiða miðana en það fékkst staðfest hjá miðakaupanda.

Þegar Nútíminn hafði samband við Björn Steinbekk til að fá viðbrögð frá honum við frétt mbl.is sagðist hann ekki ætla að ræða málið við fjölmiðla en sagðist þó ætla að vera með málið í fjölmiðlum á morgun, þriðjudag.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing