Jón Ragnar Jónsson fór í vikunni í sund í Seljavallarlaug ásamt Alexi vini sínum. Þeir höfðu frétt af því að laugin væri ekki í góðu standi og það væri oft mikið rusl í kringum hana og ákváðu því að taka með sér ruslapoka og skóflu til þess að laga smá til. Ástandið var þó mun verra en þeir höfðu reiknað með.
Jón Ragnar hefur vakið töluverða athygli fyrir Instagram aðgang sinn jonfromiceland. Þar setur hann inn myndir af ferðalögum sínum um landið. Hátt í níu þúsund manns fylgjast með Jóni á Instagram þar sem hann vakti athygli á slæmri umgengni við Seljavallalaug.
Í samtali við Nútímann segir Jón að þegar hann hafi mætt á svæðið ásamt Alexi hafi um 10 ferðamenn verið að baða sig í lauginni. Þeim hafi þó strax misboðið ástandið þegar þeir fóru inn í klefann við laugina.
„Það var allt út í rusli, úrgang, ferðagrillum, vínflöskum, bleyjum, sundfötum, handklæðum og viðbjóð… svo sorglegt að sjá. Við skófluðum rusli upp í þá poka sem við vorum með og náðum að gera tvo klefa nokkuð hreina. Núna er allvegana hægt að skipta um föt inni, en spurning hversu lengi þetta helst hreint.“
Jón segir að þeir hafi einungis náð að þrífa tvo klefa af þremur þar sem að ruslið hafi verið mun meira en þeir reiknuðu með. Hann segir að þeir ferðamenn sem hafi verið á svæðinu hafi verið þakklátir þeim fyrir að taka til. Nokkrir hafi snúið við þegar þeir hafi séð ástandið.
Jón og Alex voru í sirka tvo klukkutíma að taka til í kringum laugina en svo hafi þeir þurft að drífa sig aftur í bæinn. Þeir náðu ekki að baða sig en Jón segist ekki vera viss um að þeir hafi haft áhuga á því ef að tími hefði verið til þess.
Hann segist vita til þess að fólk hafi farið þangað áður og tekið til og það sé frábært. Hann telur fjölda ferðamanna sem heimsækja laugina ekki vera aðalástæðuna fyrir slæmri umgengni, frekar sé um að ræða vanvirðingu og þekkingarleysi.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi svona, að sjá stað í svona slæmu ástandi sem var áður glæsilegur. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og stórir aðilar í ferðaþjónustu þurfa að setja meiri kraft í að upplýsa ferðamanninn.“
Hann segist hafa fengið sterk viðbrögð við færslunni á Instagram. Yfir þúsund manns hafa sett like við hana og yfir 130 athugasemdir sem Jón segir að séu aðallega frá erlendum ferðamönnum.
„Fólk talar aðallega um hversu reið þau urðu við að sjá þetta. Þessi póstur augljóslega snerti fólk og vonandi hefur einhver áhrif á fólk næst þegar það fer í Seljavallalaug. Vonandi taka fleiri með sér poka til þess að taka eitthvað rusl í bakaleiðinni.“