Félag lýðheilsufræðinga leggst gegn frumvarpi sem heimilar sölu á áfengi í matvöruverslunum.
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga, segir í frétt RÚV að gríðarlega góður árangur hafi náðst með að draga úr áfengisneyslu ungmenna. „Vð höfum áhyggjur af því að aukið aðgengi getur aukið drykkjuna,“ segir hún. „Við höfum breytt menningunni mikið frá því sem var fyrir tuttugu árum. Og það tekur langan tíma að breyta menningu, við viljum ekki taka sénsinn á að hrófla við þeirri vinnu.“
Í frétt RÚV kemur fram að niðurstöður rannsókna á vímuefnaneyslu grunnskólanema í 10. bekk sýni að verulega hefur dregið úr áfengis- og vímuefnaneyslu undanfarin ár. Þannig höfðu 63 prósent nemenda í 10. bekk árið 1998 einhvern tíma orðið ölvaðir, en einungis 14 prósent nú.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vísar í fréttina á Facebook-síðu sinni og segir að það gleymist að nefna að opnunartími vínbúða hefur aldei verið jafn frjálslegur:
Sömuleiðis hafa margir haft orð á því að það sé alveg nóg af vínbúðum út um allt og þess vegna þurfi ekkert að setja þetta í búðir. En samt er fólk á sama tíma handvisst um það að aðgengi og opnunartími séu lykilatriði í baráttunni gegn óæskilegum áhrifum áfengisneyslu. Reynslan sýnir að það eru forvarnir og heiðarleg umræða sem dregur úr misnotkun á áfengi, sömuleiðis meðferðarrúræði.
Helgi bætir við að það sé undarlegur fókus að tala um neyslu en ekki misnotkun. „Við hljótum að vilja fókusa á misnotkun og neikvæðar afleiðingar áfengisneyslu frekar en bara nákvæmlega hversu mikils magns sé neytt á hverju tímabili,“ segir hann.
„Það sem mér finnst vanta í þessa umræðu eru spurningar um neyslumynstur, hegðunarmynstur, viðhorf til drykkju og hvernig vandamálin brjótast út. Sem dæmi er oft nefnt að í Frakklandi sé minna um íslensk fylleríslæti en meira um skorpulifur. Einmitt. Vandamálin brjótast út með misjöfnum hætti eftir því hvernig fólk lítur á áfengi, hvernig það neytir þess, hvenær og með hvaða afleiðingum. Skiptir það engu máli?“