Þingmaðurinn Gunnar Hrafn Jónsson steig fram í vikunni og greindi frá því að hann muni á næstunni taka sér veikindahlé vegna alvarlegs þunglyndis sem hann glímir við.
Hann sagði frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni og hefur hún vakið gríðarlega mikla athygli.
Sjá einnig: Færsla Gunnars Hrafns um þunglyndi vekur gríðarlega athygli: „Greinilega margir í sömu sporum“
Fjölmargir hafa sett sig í samband við Gunnar Hrafn og þakkað honum fyrir að vera ófeiminn við að segja frá veikindum sínum. Margir hafa sagt honum frá sínum eigin veikindum. Hann fékk einnig skilaboð þar sem hann var hvattur til að „ganga alla leið“ og svipta sig lífi.
„Ég hef fengið skilaboð þar sem ég hef verið hvattur til að ganga alla leið og fyrirfara mér, ég eigi ekki að vera á launum hjá ríkinu, ég hefði ekki átt að sækja um þessa vinnu, veikt fólk eigi ekki rétt á að vinna opinber störf. Ég velti fyrir mér hver viðbrögðin hefðu verið ef ég hefði fengið botnlangabólgu, hvað hefði gerst ef ég hefði verið sykursjúkdómur. Mér finnst þetta vera gríðarlegir fordómar,“ sagði Gunnar Hrafn.
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, ásamt dóttur sinni.
Hann sagðist ekki vera að leita eftir athygli, heldur hefði hann kosið að greina frá þessu með þessum hætti þar sem hann hefði misst þrjá mjög góða vini úr sjúkdómnum.
„Ég er bara að gera þetta af því að ég þekki persónulega þrjár mjög góða vini sem hafa fallið frá af þessum sjúkdómi, ég vil ekki einn einasta mann í viðbót, ekki einn í viðbót. Við þurfum að efla heilbrigðiskerfið, það verður efst á baugi hjá mér þegar ég kem aftur úr veikindaleyfi. Við verðum að hjálpa þessu fólki,“ sagði Gunnar Hrafn.
Ef þú lýsir fyrir þeim sem þekkja ekki þunglyndi, hvað gerist þegar þetta hellist yfir þig?
„Í raun og veru algjört svartnætti, maður missir allan vilja til allra verka, maður hættir að hirða sjálfan sig og aðra og hafa samband við vini sína, maður einangrar sig. Og líður vítiskvalir. Grætur, einn uppi í rúmi, jafnvel heilu dagana án þess að gera neitt eða fara út, eða borða. Þetta er bara eins og að liggja lamaður, ég get bara ekki lýst kvölunum sem geta fylgt þessu,“ sagði Gunnar Hrafn.
Næst beindi hann orðum sínum beint til þeirra sem glíma við sömu veikindi.
„En það er hægt með lyfjum og góðri meðferð, og í guðanna bænum ef einhver er að horfa núna, leitaðu þér hjálpar. Ég hef veikt tvisvar alvarlega af þessu, ég hef komist upp úr því einu sinni og ég mun gera það aftur, þetta er hægt, þú getur sloppið við þetta, þú þarft ekki að deyja,“ sagði Gunnar Hrafn.
Þegar þér líður sem verst, langar þig bara að deyja?
„Það er ekkert annað í stöðunni, hvað ætlar þú að gera? Þegar líðan þín er þannig að maður getur ekki hugsað sér neitt jákvætt í öllu lífinu þá er bara ein leið út.
Hefur þú sjálfur reynt að fyrirfara þér þegar staðan hefur verið sem verst hjá þér?
„Já.“
Oftar en einu sinni?
„Já. Versta tilfellið var þegar ég og besti vinur minn ætluðum að fyrirfara okkur saman. Ég hætti við á síðustu stundu, reyndi að elta hann uppi en missti af honum. Hann fannst í fjörunni næsta morgun,“ sagði Gunnar Hrafn.
Hann sagðist hugsa um það á hverjum degi að svipta sig lífi, þegar hann væri veikur.
„Ég vil taka fram að ég er mjög veikur núna, þetta er ekki eðlilegt ástand,“ sagði Gunnar Hrafn.