Áhorfendur stóðu á öndinni í kvöld þegar Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, stoppaði í miðju viðtali á RÚV og fór að kanna hvað væri í gangi. „Alfreð, er í lagi?“ spurði Aron og horfði áhyggjufullur á svip á eitthvað sem var í gangi.
Fótbolti.net greinir frá því að það hafi liðið yfir Ara Frey Skúlason inni í búningsklefa íslenska liðsins. Hann fór meiddur út af velli í leiknum í kvöld eftir að hafa fengið högg á ökkla í lok fyrri hálfleiks.
Aron spurði Alfreð Finnbogason hvað væri í gangi og margir töldu að eitthvað hefði komið fyrir hann. Svo virðist sem hann hafi verið nálægt þegar leið yfir Ara og menn komu að hjálpa honum.
Uppfært kl. 22.29
„Ég heyrði að það var verið að kalla á lækni aftur og aftur og vissi ekki alveg hvað var í gangi,“ sagði Aron í viðtali við Fótbolta.net í kvöld. Í viðtalinu sagði hann einnig að hann hafi ekki vitað að hann væri í beinni útsendingu og baðst jafnframt afsökunar á að fólk hafi haldið að það væri eitthvað alvarlegt í gangi.
Aron sagði að Ara hefði vantað sykur og þess vegna hefði liðið yfir hann eftir leikinn. Slíkt geti komið fyrir eftir átök sem þessi. „Ari er í góðu lagi og hann kemur mjög líklega hoppandi á hækjum hér eftir smá,“ sagði Aron.