Fótboltakappinn Albert Ingason virðist hafa valdið sjálfum sér sárum vonbrigðum í sumar þegar hann tók upp símann á tíma sem enginn ætti að taka upp símann og bauð stúlku heim í snitzel. Hann tísti um þessa miður skemmtilegu lífsreynslu á einlægan og ósérhlífinn hátt.
Hef oft gert alveg ótrúlega heimskulega hluti í glasi og oft það heimskt að ég ætti í raun og veru bara að hætta að drekka.
En það var ekki fyrr en ég vaknaði daginn eftir eitt djammið og las skilaboð frá mér að reyna fá dömu yfir í snitsel kl 06:50 að ég íhugaði það í smástund. pic.twitter.com/pCoxmDr0lL
— Albert Ingason. (@Snjalli) July 25, 2018
Nema hvað. Tístarinn Ósönn tvít fyrir læk greip tíst Alberts á lofti og endurtísti því. Um nafnlausan aðgang er að ræða þar sem birt eru tíst sem síðuhaldarar telja að fólk sé að skálda í von um fjölda læka frá notendum Twitter. Þannig telja þau sem eru á bakvið Ósönn tvít fyrir læk að þau séu að grípa notendur á Twitter glóðvolga.
Og þau töldu eflaust að tístið um snitzelævintýri Alberts Ingasonar væri hvalreki á strendur sínar. Þangað til í dag
Eftir að Ósönn tvíst fyrir læk birti tíst Alberts á síðu sinni fann hann sig knúinn til að sanna mál sitt. Hann birti því tíst í dag með skjáskotum úr samtali sínu við stúlkuna sem fékk boð um sérstakt snitzel-stefnumót snemma morguns í sumar.
Góð síða @osonntvit en því miður fyrir utan að þetta var 06:40 en ekki 06:50 þá er þetta vondur sannleikur og í raun töluvert verra en mig minnti.
Mikill andlegur sársauki sem fylgir því að þurfa sanna þetta.Hættur að drekka. pic.twitter.com/IiYRuouY7Q
— Albert Ingason. (@Snjalli) September 17, 2018
Samskiptin renna stoðum undir sögu Alberts. Hann bauð stúlkunni í einhvers konar snitzel-samloku. Og dýfu (e. dip). Hún afþakkaði hins vegar boðið og velti fyrir sér af hverju hann tók ekki bara Nonnabita með sér heim.
„Mikill andlegur sársauki sem fylgir því að þurfa sanna þetta,“ segir Albert í tísti sínu og fullyrðir að hann sé hættur að drekka.
Við fögnum hugrekki hans ????