Alexandra Diljá Birkisdóttir fetaði í fótspor hinnar sex ára Karitas Lóu í gærkvöldi þegar hún bauð upp á afmælisköku með mynd af Boga Ágústssyni, fréttamanni. Hún verður 18 ára á þriðjudaginn og segir Boga vera einn af fyrirmyndunum í lífi hennar.
Karitas Lóa hélt upp á sex ára afmælið sitt með veislu í ágúst og vakti Bogaþemað í afmælinu mikla athygli.
Kamilla Einarsdóttir, móðir Karitasar, útskýrði þá að hún hafi fengið að velja sér köku í tilefni dagsins. „Hún valdi að sjálfsögðu að fá köku með nammi og mynd af átrúnaðargoðinu hennar, honum Boga Ágústssyni.“ Fréttin um þetta á Nútímanum var ótrúlega mikið lesin.
Sjá einnig: Bogi ánægður með Bogakökuna í afmæli Karitasar Lóu: „Það er voðalega gaman að þessu“
Alexandra segir að kakan hafi aðallega orðið fyrir valinu af því að hún hafði svo gaman af fréttinni um Karitas Lóu.
„Í alvöru það skemmtilegasta sem ég hef séð. Annars finnst mér eins og Bogi hafi alltaf verið til staðar fyrir okkur, það er alltaf hægt að treysta á hann einhvernveginn,“ segir hún í samtali við Nútímann.
Alexandra verður á 18 ára afmæli á þriðjudaginn og verður þar með sjálfráða.
„Bogi er ein af fyrirmyndunum sem ég vil hafa nú þegar ég verð sjálfráða og þarf að taka ákvarðanir og álíka vesen. Hann er einfaldlega svo ótrúlega traustur og klár gæi sem ætti að heiðra,“ segir hún einnig.