Auglýsing

Algjörri „sprengju“ varpað inn í þekktasta morðmál Bandaríkjanna síðari ára

Hæstiréttur í Suður-Karólínufylki í Bandaríkjunum hefur samþykkt að taka fyrir mál Alex Murdaugh sem var sakfelldur fyrir að hafa myrt eiginkonu sína og yngsta son með köldu blóði í júní árið 2021. Murdaugh fékk tvöfaldan lífstíðardóm í kjölfarið án möguleika á skilorði og þarf því að eyða allri sinni ævi á bakvið lás og slá. Lengi vel virtist enginn möguleiki hjá honum að áfrýja dómi sínum því allar áfrýjanir runnu út í sandinn.

Nú eru hins vegar blikur á lofti ef marka má úrskurð Hæstaréttar Suður-Karólínufylkis sem ákvað að taka til greina áfrýjun hans sem snýr að ritara sýslumannsins í Colleton County og starfaði í dómssal þegar hin frægu réttarhöld yfir honum fóru fram.

Lögfræðingar Murdaugh saka dómritarann Becky Hill um að hafa reynt að hafa áhrif á kviðdómendur í málinu og segja að í eitt skipti hafi hún gengið inn í herbergi kviðdómenda, eftir að málið hafði verið lagt í þeirra hendur, og sagt þeim „að láta hann ekki blekkja sig.“ Með þessu framferði sínu hafi hún hvatt kviðdómendur til að sakfella Murdaugh.

„Fordæmalaus afskipti af kviðdómi“

Lögfræðingar Murdaugh segja að um sé að ræða „fordæmalaus afskipti af kviðdómi“ en þeim fullyrðingum var hafnað af dómaranum Jean Toal í janúar. Þeirri ákvörðun hefur hins vegar nú verið snúið við af Hæstarétti sem mun nú íhuga hvort veita eigi Murdaugh endurupptöku á máli hans.

„Það er ekkert annað en heilbrigð skynsemi að þegar embættismaður dómsins fer inn í kviðdómsherbergi í morðmáli og hvetur til sakfellingar vegna þess að hún vill græða á því að selja bækur um sakfellinguna, að slíkt ætti að ógilda hvaða dómsmál sem er,“ sögðu lögfræðingar hans.

Bókin sem dómritarinn Becky Hill gaf út.

Fjöldi Íslendinga fylgdist með dómsmálinu í gegnum YouTube en þar sást umræddur dómritari reglulega enda með skrifborð í miðjum dómssalnum. Bókin sem Becky Hilll gaf út heitir Bakvið dyr réttlætis: Murdaugh morðin eða „Behind The Doors of Justice: The Murdaugh Murders.“

Neitaði öllum ásökunum

Þá fullyrða lögfræðingar Murdaugh að umrædd Becky Hill hafi ekki farið einu sinni, eða tvisvar, heldur nokkrum sinnum inn í kviðdómsherbergið og spurt kviðdómendur um skoðanmir þeirra á sekt eða sakleysi Murdaugh auk þess að hafa átt í einkasamtölum við kviðdómendur um sönnunargögnin í málinu. Máli lögfræðinga Murdaughs til stuðnings var bent á það að einum úr kviðdómi var skipt út eftir að Becky Hill sagðist hafa séð Facebook-færslu frá fyrrverandi eiginmanni kviðdómandans sem gaf til kynna að hún hefði sagt honum að hún vissi nú þegar hver niðurstaðan yrði.

Fjölskylda Alex Murdaugh var vel þekkt í Suður-Karólínufylki en flestir þeirra voru starfandi lögfræðingar og eru enn.

Becky þessi Hill neitaði hins vegar að hafa sagt kviðdómanda frá því að Murdaugh hafi náð að hafa áhrif á vitni og neitaði einnig fyrir það að hafa sagt að „allt sem Murdaugh sagði væri lygi.“ Þá neitaði hún einnig fyrir að hafa sagt kviðdómendum að „þetta ætti ekki að taka langa stund“ þegar hópurinn var að ákveða hvort Murdaugh væri sekur eða saklaus.

„Fröken Hill braut allar reglur embættismanna fyrir peninga og frægð,“ sögðu lögfræðingar Murdaughs sem munu innan skamms komast að því hvort skjólstæðingur þeirra fái ný réttarhöld frá A til Ö.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing