Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið upp nýtt verklag við lokunarpósta til Grindavíkur eftir ákall íbúa í bænum. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu embættisins á samfélagsmiðlinum Facebook. Nú verða allir þeir sem ætla til Grindavíkur að stoppa við lokanir og gefa upp kennitöluna sína, nafn og bílnúmer – það verður skráð niður í sérstaka bók.
„Þetta er gert til að hægt sé að hafa betri yfirsýn hverjir eru inni í bænum hvert sinn sem og til að sigta út ferðamenn og aðra sem ekki eiga erindi inn í bæinn,“ segir lögreglan á Facebook-síðu sinni. Þá biður embættið ökumenn að virða þetta og stöðva við lokanir en í tilkynningunni segir að eitthvað sé um að ökumenn aki í gegn án þess að stöðva hjá öryggisvörðum við lokanir.
Má ætla að þetta nýja verklag lögreglunnar á Suðurnesjum sé vegna mikils þrýstings frá íbúum í Grindavík sem segja að óprúttnir aðilar hafi farið ránshendi um bæinn að undanförnu og rænt meðal annars gaskútum.