Hópslagsmál brutust út í sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum skammt frá Egilsstöðum í nótt. Allt tiltækt lið lögreglunnar á Egilsstöðum var kallað út vegna slagsmálanna. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Hjalti Bergmar Axelsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Austurlandi segir að ósætt hafi orðið á milli tveggja hópa í sitthvorum bústaðnum þegar einhverjir fóru á milli bústaða óboðnir.
Ósættið endaði svo með slagsmálum þar sem hnefarnir voru látnir tala. Þegar lögreglumennirnir reyndu að skerast í leikinn þá var ráðist að þeim. Tveir einstaklingar voru handteknir og færðir á lögreglustöð.
„Annar þeirra er grunaður um líkamsárás og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni eða gagnvart lögreglumönnunum. Hinn er grunaður um ofbeldi gagnvart lögreglumönnunum og tálmun í handtöku, hann var að reyna að varna handtöku,“ segir Hjalti aðalvarðstjóri.
Fjórir lögreglumenn sem voru á vakt fóru strax á vettvanginn og þrír til viðbótar voru kallaðir út af bakvakt þegar í ljós kom hversu mikil harkan var. Hjalti segir að um tuttugu til þrjátíu manns hafi verið við sumarbústaðinn en ekki hafi allir verið að slást.