Auglýsing

Allt varð vitlaust á Ólympíuleikunum í Frakklandi í gær: Tæma þurfti heilan leikvang – MYNDBAND

Þrátt fyrir að Ólympíuleikarnir hafi ekki verið formlega settir í Frakklandi þá hafa nokkrar íþróttir þó hafið leik en þar á meðal er knattspyrnan. Það má með sanni segja að sú keppni hafi hafist með látum en í gær keppti Marokkó við Argentínu á St. Étienne-leikvangnum sem ætti að vera Íslendingum kunnugur en þar sigruðum við enska landsliðið í Evrópukeppninni árið 2016.

„Þetta er bara skammarlegt. Þetta myndi ekki einu sinni gerast á litlu hverfismóti“

Marokkó sigraði Argentínu 2-1 í hádramatískum leik sem tók fjóra klukkutíma að klára þar sem allt varð bókstaflega vitlaust á þessum 42-þúsund manna leikvangi en stuðningsmenn Marokkó þustu inn á völlinn og köstuðu alls kyns dóti og drasli í leikmenn Argentínu þegar þeir síðarnefndu skoruðu jöfnunarmark leiksins – það var síðan dæmt af með VAR. Þrátt fyrir það olli „jöfnunarmarkið“ mikilli reiði meðal stuðningsmanna Marokkó með fyrrgreindum afleiðingum.

Myndskeið frá leiknum ganga nú eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla en leikurinn var stöðvaður og allir áhorfendur voru beðnir um að yfirgefa leikvanginn en það tók næstum því tvo klukkutíma. Leikmennirnir kláruðu svo síðustu mínútur leiksins með tóman leikvang.

„Aldrei upplifað annað eins“

Skipulag og öryggisgæsla í kringum leikinn hefur fengið falleinkunn, og rúmlega það, hjá nokkrum af þekktustu knattspyrnustjörnum í heimi en þar fer fremstur þjálfari Argentínu – hinn margrómaði Javier Mascherano en hann vann einmitt gull á Ólympíuleikunum með liðinu árið 2004 og 2008.

„Ég hef ekki verið þjálfari lengi en aldrei á mínum ferli sem leikmaður hef ég upplifað annað eins,“ sagði Mascherano og bætti í: „Þetta er sirkus en svona er þetta. Við getum ekki stjórnað því. Ég sagði við strákana að nú þyrftum við að horfa fram á veginn og reyna að ná þeim sex stigum sem við þurfum til þess að komast áfram. Allt þetta rugl ætti að gefa okkur þá hvatningu sem við þurfum til að klára þetta.“

Skipulagið þarf að vera í lagi

Um tíma var óljóst hvort leiknum yrði haldið áfram þegar hann var á tíma blásinn af þar sem opinber vefsíðu Alþjóða Ólympíusambandsins (IOC) gaf til kynna að leiknum væri lokið. Mascherano segir að fyrirliðar bæði Marokkó og Argentínu hefðu ákveðið að spila ekki áfram en skipuleggjendur mótsins hafi hringt í FIFA og svo í framhaldinu ákveðið að láta leikmenn klára leikinn.

„Þetta er bara skammarlegt. Þetta myndi ekki einu sinni gerast á litlu hverfismóti. Þetta er ömurlegt,“ sagði Mascherano og bætti við að það þyrfti ekki bara að vera „ólympíuandi“ til staðar – skipulagið þyrfti líka að vera í lagi.

Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum mótsins kom eftirfarandi fram:

„Fótboltaleiknum milli Argentínu og Marokkó á Saint-Étienne leikvanginum var frestað vegna þegar áhorfendur þustu inn á völlinn. Leikurinn hófst aftur og lauk án frekari vandræða. París 2024 vinnur með viðeigandi aðilum að því að skilja orsakir umræddrar uppákomu og gera viðeigandi ráðstafanir svo þetta komi ekki fyrir aftur.“

Argentína leikur sinn annan leik á laugardag í Lyon gegn Írak, meðan Marokkó mætir Úkraínu í Saint-Étienne sama dag.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing