Maðurinn sem er grunaður um að hafa drepið Brian Thompson, forstjóra sjúkratryggingafyrirtækis í Bandaríkjunum, hefur sankað að sér risastórum aðdáendahóp. Svona hlutir gerast bara þarna vestanhafs. Maðurinn heitir Luigi Mangione en aðdáendur hans hafa lýst yfir reiði sinni á væntanlegri dauðarefsingu sem hangið gæti yfir haus hans.
Mangione var ákærður á fimmtudag fyrir brot á alríkislögum, þar á meðal morð, eltihrellingar og brot á vopnalögum. Málið hefur nú verið fært upp á hærra dómsstig eftir að ákæra á vegna brota á alríkislögum var gefin út. Þrátt fyrir að dauðarefsing hafi verið afnumin í New York fyrir áratugum, gæti ákæran á alríkisstigi leitt til þess að Mangione, 26 ára, verði dæmdur til dauða. Saksóknarar hafa þó ekki gefið upp hvort þeir hyggist krefjast dauðarefsingar í málinu.
Verður Mangione gerður að fordæmi?
Fréttirnar um að Mangione gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu hafa aukið áhuga almennings á meintum morðingja. Fólk hefur birt teikningar sem sýna hann í líki trúarlegs leiðtoga, og eitt slíkt verk var meira að segja sett upp nálægt vettvangi þar sem Thompson var myrtur. Á netinu halda margir því fram að Mangione fái mun harðari refsingu en alræmdir glæpamenn og skólamorðingjar. Sumir telja að stjórnvöld vilji gera hann að fordæmi til að koma í veg fyrir mögulega uppreisn gegn stórfyrirtækjum.
Eitt innlegg á samfélagsmiðlinum X hljóðaði svo: „Þeir vilja gefa Luigi Mangione dauðarefsinguna. Það er eina ástæðan fyrir því að hann er ákærður fyrir brot á alríkislögum. Þeir vilja bókstaflega taka hann af lífi fyrir að þora að ógna kapítalisma og græðgi stórfyrirtækja. Þeir gera þetta ekki einu sinni við skólamorðingja.“
Annar notandi bætti við: „Mjög fáir skólamorðingjar hafa fengið dauðarefsingu. Samt er verið að ákæra Luigi Mangione svo hann fái dauðarefsingu fyrir að drepa einn mann. Þú getur drepið tugir barna og fengið vægari dóm vegna þess að líf þeirra skiptir ekki jafn miklu máli og líf forstjóra. Þetta er Bandaríkin.“
Sumir benda á að meðferð stjórnvalda á Mangione, þar á meðal dramatísk sýning hans fyrir augum fjölmiðla, auki aðeins áhuga almennings á honum.
Einn notandi skrifaði: „Luigi stígur út með nýklippt hár, yfirvofandi dauðarefsingu, og með myndatöku hjá NYPD. Þetta er brjálæðislegt. Ertu með eða á móti honum, þau gera það svo auðvelt fyrir alla að upphefja hann.“
Annar sagði: „Þau eru að reyna að ákæra Luigi Mangione til dauðarefsingar, og ég held að þau geri sér ekki grein fyrir því hversu heimskuleg ákvörðun það væri ef þau fara alla leið. Stjórnvöld eru að undirbúa eigin fall.“
Svar við þeirri færslu var: „Sammála. Þau eru bókstaflega að búa til píslarvott fyrir málstaðinn… Hefur enginn þeirra horft á Hunger Games?! Hann er okkar ‘Mockingjay’.“
Fluttur með einkaþotu og þyrlu
Á fimmtudag var Mangione fluttur með einkaþotu frá Pennsylvaníu til New York eftir að hafa afsalað sér framsalsrétti í Pennsylvaníu. Hann var síðan fluttur með þyrlu til miðborgar Manhattan þar sem hann var ákærður fyrir morð. Hann hefur síðan verið vistaður í gæsluvarðhaldi í Metropolitan Detention Center í Brooklyn.
Nýopnuð ákæra gegn Mangione inniheldur frekari upplýsingar um glósur sem lögregla segir hafa fundist í minnisbók hans við handtökuna í síðustu viku – þar á meðal yfirlýsingar hans um vilja til að „útrýma“ forstjóra tryggingafyrirtækis.